Sparisjóðurinn í Keflavík (SpKef) skilaði fyrr í dag inn starfsleyfi sínu til Fjármálaeftirlitsins (FME), samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Stjórn SpKef hefur sömuleiðis vikið og bráðabirgðastjórn verið skipuð yfir sjóðinn. Íslenska ríkið mun taka yfir sjóðinn og starfsemin mun halda áfram í óbreyttri mynd sem stendur. Öll útibú SpKef verða því opin á morgun líkt og ekkert hafi í skorist. Allar innstæður hans eru einnig tryggðar samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands frá því í febrúar 2009 sem var ennfremur staðfest í desember síðastliðnum.

Starfsmönnum sjóðsins verður tilkynnt um þetta á starfsmannafundi klukkan átta í fyrramálið.

Atburðirnir gerast í kjölfar þess að hluti kröfuhafa SpKef samþykkti ekki þá skilmála sem fylgdu því að ríkið legði sjóðnum til nýtt eigið fé á grundvelli neyðarlaganna, en þeir skilmálar hefðu þýtt að kröfuhafarnir hefði tapað kröfum sínum að mestu. Endurskipulagning SpKef og níu annara sparisjóða hefur staðið yfir nánast frá hruni íslenska bankakerfisins í október 2008.

Verið að vernda innstæðueigendur

Í skýrslu starfsmanna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), um aðra endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands hjá sjóðnum og var birt opinberlega í gær, var sagt frá stöðunni á endurskipulagning SpKef og Byr. Þessir tveir sjóðir áttu að mynda hryggjastykki í nýju sparisjóðakerfi landsins. Í skýrslu AGS stendur hins vegar að ef  kröfuhafar og stofnfjáreigendur Byrs og SpKef taka ekki tilboði íslenska ríkið hefur lagt fyrir þá mun verða gripið til aðgerða sem „vernda innstæðueigendur að fullu.“ Hvor leiðin sem verður farin þá á endurskipulagningarferli sparisjóða að ljúka fyrir lok maímánaðar.

Nú er ljóst að gripið hefur verið til aðgerða vegna SpKef. Líkt og greint var frá í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins er hluti erlendra kröfuhafa Byrs afar óánægður með það tilboð sem lagt hefur verið fyrir þá og er forsenda þess að sjóðurinn verði endurfjármagnaður af ríkinu. Tilboðið felur í sér að kröfur þeirra verði færðar niður um 58% og að stofnfé verði fært niður um 96%.

Hafni erlendu kröfuhafarnir tilboðinu geta aðrir kröfuhafar keypt kröfu þeirra og samþykkt það. Gerist það ekki verður tilboð ríkisins dregið til baka og gripið verður til aðgerða sem „vernda innstæðueigendur að fullu“ líkt og segir í endurskoðunarskýrslu AGS.