Sparisjóðurinn hefur hafið átak meðal viðskiptavina sinna og landsmanna allra sem felst í því að styrkja 8 frjáls félagasamtök á sviði geðraskana barna og unglinga. Átakið sem er kallað Þú gefur styrk stendur til jóla en markmiðið er safna fé til að styðja vel við framsæknar hugmyndir félaganna. Þau verkefni sem hljóta styrki voru valin með aðstoð fagfólks og eiga það sameiginlegt að vera uppbyggingar-, útbreiðslu-, fræðslu og þróunarverkefni í geðheilbrigðismálum.

Þetta er annað árið sem að Sparisjóðurinn leggur andvirði hefðbundna jólagjafa til viðskiptavina í formi styrkja til geðheilbrigðismála. Sparisjóðurinn leggur fram 1.000 kr. fyrir hönd hvers viðskiptavinar sem vill láta gott af sér leiða og styrkja félag innan söfnunarinnar. Um leið er hver og einn hvattur til að leggja fram viðbótarframlag. Í fyrra söfnuðust 20 milljónir og er stefnt að því að safna jafn hárri upphæð núna eða jafnvel gera enn betur.

Auðvelt er fyrir alla að taka þátt og gefa styrk frá Sparisjóðnum, til dæmis á netinu ( www.spar.is ) eða með heimsókn eða símtali í næsta Sparisjóð, hvar sem er á landinu. Á heimsíðu Sparisjóðsins www.spar.is er einnig að finna ítarlegar upplýsingar um félögin og verkefnin sem fjármunirnir munu renna til.

Með því að láta viðskiptavini sjálfa velja hvert þeirra framlag fer, er fólk hvatt til að kynna sér brýn og þörf verkefni á þessu sviði. Um leið er vakin athygli á hversu geðræn vandamál vandamála barna og unglinga eru víðtæk með það fyrir augum að draga úr fordómum. Staðreyndin er sú að einn af hverjum fjórum landsmönnum glímir við geðræn vandamál einhvern tímann á lífsleiðinni. Geðheilbrigðisvandamál geta haft áhrif á alla þætti í lífi barnsins. Allir sem koma nálægt uppeldi og uppvexti barnsins hafa hlutverki að gegna í að efla, viðhalda og bæta geðheilbrigði þess. Foreldrar, kennarar, starfsfólk heilbrigðis- og félagsmálastofnana eiga allir þátt í uppeldi barnsins. Það eru því fáar fjölskyldur í landinu sem þessi vandi lætur ósnortnar.

Sparisjóðurinn leggur fram 1.000 kr. fyrir hönd hvers viðskiptavinar

Viðskiptavinir ráða til hvaða félaga styrkjum er varið innan söfnunarinnar.

Viðskiptavinir og landsmenn allir eru hvattir til að bæta við framlagið.

Takmarkið að safna yfir 20 milljónir.

Listi yfir þau félög og verkefni sem hljóta styrki:

ADHD samtökin. Til stuðnings fólki með athyglisbrest, ofvirkni og skyldar raskanir sem og fjölskyldum þeirra.

Verkefni : Námskeið fyrir kennara og annað starfsfólk grunnskóla, heilsugeirans, starfsmenn félagsþjónustu sveitarfélaga og íþrótta- og tómstundageirans sem að starfa með ADHD börnum

Barnageð. Barnageð eru hópur foreldra sem hafa tekið sig saman um að fjölga úrræðum fyrir börn og unglinga með geðraskanir og ekki síður foreldra þeirra.

Verkefni: Fræðslufundir sem  beinast að börnum og foreldrum á landsbyggðinni.

Barnaheill. Samtökin vinna að réttindum og velferð barna hérlendis og erlendis.

Verkefni: Styrkur til Meðferðaheimilisins á Geldingarlæk sem er fyrir börn á aldrinum 8-14 ára með hegðunar-og/eða geðraskanir.

Hugarafl. Í Hugarafli eru einstaklingar sem hafa reynslu af geðrænum erfiðleikum, eru á batavegi og vilja láta gott af sér leiða til málaflokksins.

Verkefni: Forvarnir og fræðsla fyrir grunn- og framhaldsskólanema. Markmiðið er geðrækt meðal ungmenna, að fræða ungmenni um mismunandi leiðir til eflingar geðheilsu og að afsanna staðalímyndir geðsjúkra.  Í umsjón Hugarafls í samstarfi við Hlutverkasetur.

Rauði krossinnRauði kross Íslands bregst við neyð jafnt innanlands sem utan og veitir aðstoð er gerir fólk hæfara til að takast á við erfiðleika og bregðast við áföllum.

Verkefni: Félagsvinur barna og unglinga er verkefni til stuðnings börnum og unglingum sem eiga við geðræn vandamál að stríða og/eða til stuðnings börnum sem eiga foreldri/foreldra með geðröskun.

Sjónarhóll. Sjónarhóll er ráðgjafarmiðstöð fyrir fjölskyldur barna með sérþarfir. Markmið félagsins er stuðla að því að fjölskyldur barna með sérþarfir njóti jafnréttis og sambærilegra lífskjara á við aðra.

Verkefni: Málþing Sjónarhóls sem verður í febrúar 2008.  Efni málþingsins er ”Systkini barna með sérþarfir”.  Á málþinginu verður varpað ljósi á stöðu barna með sérþarfir og systkina þeirra

Spegillinn. Aðstandendasamtök átröskunarsjúklinga.

Verkefni: Mun bjóða upp á forvarna- og fræðslufyrirlestra fyrir kennara og foreldra í  grunn- og framhaldsskólum, samtökum, og vinnustöðum.

Umsjónarfélag einhverfra. Markmið félagsins er að bæta þjónustu við fólk með fötlun á einhverfurófinu og fjölskyldur þeirra.

Verkefni: Þýðingu og útgáfa bókar um Aspergerheilkenni. Aspergerheilkenni er fötlun á einhverfurófi og koma einkennin fram í félagsþroska og áráttukenndri hegðun.