Fyrirtækið Sparnaður braut gegn góðum viðskiptaháttum þegar tryggingar frá Bayern, sem Sparnaður selur hér á landi, voru auglýstar. Fyrirtækið braut ýmist gegn neytendum þar sem þeim voru veittar villandi upplýsingar eða gagnvart samkeppnisaðilanum Allianz þar sem framsetning var ósanngjörn og til þess fallin að hafa áhrif á eftirspurn.

Þetta er niðurstaða Neytendastofu sem úrskurðaði um málið á dögunum. Í heildina var kvörtunin í níu liðum þar sem Allianz kvartaði yfir ósönnum fullyrðingum og villandi framsetningu á mismun á kostnaði við þjónustu.

Fullyrðingarnar sneru meðal annars að þýskri ríkisábyrgð og að öryggi og styrkur Bayern væri meiri en Allianz. Þá taldi Allianz einnig að framsetning Sparnaðar á samanburði iðgjaldakostnaðar, upphafskostnaðar og hagnaðarhlutdeildar væri villandi. Neytendastofa telur að Sparnaður hafi brotið af sér í sjö af þeim tilvikum sem kvartað var yfir.