Sparnaður heimila jókst á síðasta ári og líkur eru á því að sú þróun haldi áfram á þessu ári að mati Seðlabankans. Þetta kemur fram í nýjasta hefti Peningamála sem komu út í síðustu viku í kjölfar vaxtaákvörðunar peningastefnunefndar bankans.

Ráðstöfunartekjur heimila uxu um tæp níu prósentustig á síðasta ári á meðan einkaneysla jókst um ríflega fimm prósent. Einnig stendur í Peningamálum að vergur þjóðhagslegur sparnaður hafi aukist og að hann sé hár í sögulegu samhengi.

Að sögn Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings Seðlabankans, er sparnaður heimila um þessar mundir sögulega hár en hann jókst töluvert í kjölfar fjármálakreppunnar 2008. Hann bætir því við að þetta sé hluti af alþjóðlegri þróun. „Við sjáum að sparnaður heimila er einnig að aukast erlendis,“ segir hann. „Olíuverð hefur verið að lækka mikið og einkaneysla hefur ekki verið að aukast jafn mikið og menn héldu. Hér á landi er þetta að einhverju leyti vegna vaxtastigsins, sem er vissulega ætlunin. Því er ætlað að halda aftur af einkaneyslu og auka sparnað.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .