Hagstofan hefur birt niðurstöður tekjuskiptingaruppgjörs fyrir alla fimm megingeira hagkerfisins fyrir árið 2016.Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar. Uppgjörið felur ekki í sér nýtt mat á vergri landsframleiðslu í heild eða helstu undirliðum hennar heldur er það byggt á niðurstöðum ráðstöfunar- og framleiðsluuppgjörs þjóðhagsreikninga. Hér er aftur á móti lögð áhersla á að skrá verðmætastrauma milli megingeira hagkerfisins.

Helstu niðurstöður tekjuskiptingaruppgjörsins eru vergur og hreinn sparnaður hvers geira fyrir sig en það er sá hluti tekna af framleiðslu hagkerfisins, innanlands eða utan, sem ekki er notaður til neyslu.

Vergur sparnaður heimilageirans nam 4,0% af ráðstöfunartekjum geirans á árinu 2016 samanborið við 5,5% árið 2015. Verg fjármunamyndun nam 6,6% af ráðstöfunartekjum ársins 2016 en var 5,1% árið 2015.

Verg fjármunamyndun fyrirtækja landsins nam 15,5% af VLF árið 2016 samanborið við 13,6% árið 2015. Vergur rekstrarafgangur annarra fyrirtækja en fjármálafyrirtækja nam 40,9% af vinnsluvirði þeirra árið 2016 en 40,7% árið 2015.