„Þetta er alfarið tæknilegt mál hjá Reiknistofu bankanna (RB) þar sem öll okkar skuldabréf eru vistuð og hvernig greiðsluröðun er háttað þar,“ segir Gunnhildur Gunnarsdóttir, sitjandi forstjóri Íbúðalánasjóðs, í samtali við Morgunblaðið .

Þar er greint frá því að fjölmörg dæmi séu um að séreignarlífeyrissparnaður sem fara átti inn á höfuðstól húsnæðislána til lækkunar í samræmi við lög um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána hafi þess í stað farið í að greiða niður vexti af lánunum. Fyrir vikið hafi viðkomandi greitt lægri afborganir í stað þess að höfuðstóll lækki.

Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir, lögfræðingur hjá Ríkisskattstjóra, segir vandamálið helgast af því að kerfi lánveitenda hafi ekki ráðið við að koma sparnaðinum inn á höfuðstólinn. „Þetta er nær eingöngu bundið við Íbúðalánasjóð núna,“ segir hún.