„Okkur langar til að lána venjulegu fólki á betri kjörum en þeim standa til boða í dag. Það er hluti af okkar markmiði um að bæta bankakjör þess hóps,“ segir Haukur Skúlason, framkvæmdastjóri og annar stofnenda sparisjóðsins Indó.

Þótt ýmislegt eigi eftir að koma í ljós hvað innlánasafnið varðar segir Tryggvi ljóst að búast megi við miklum veltuhraða á veltureikningasafninu; það sé einfaldlega í eðli slíkra reikninga. Jafnvel sparnaðarreikningar sem Indó stefnir að því að bjóða með vorinu verði líkast til mest notaðir undir sparnað sem ætlað sé að mæta óvæntum útgjöldum eða fjárhagslegum áföllum innan fáeinna ára.

Af þeim sökum segja Haukur og Tryggvi Björn Davíðsson rekstrarstjóri Indó og meðstofnandi Hauks að húsnæðislán muni líklega ekki henta vel í fyrirsjáanlegri framtíð þar sem þau séu einfaldlega til of langs tíma fyrir innlánasafn eins og Indó sér fram á framan af.

„Húsnæðislán gætu því orðið erfið til að byrja með. Svona innlánasafn verður seint grundvöllur útlána til 25-40 ára,“ segir Tryggvi. Styttri og minni lán án veða muni því væntanlega henta betur.

„Þótt við vitum ekki enn hvernig útlánin verða vitum við það að við viljum ekki setjast niður og móta einhver útlán sem við höldum að fólk vilji. Við viljum bara spyrja fólk hvers konar útlán það vill.“

Nánar er rætt við Hauk & Tryggva í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.