Sparnaður ehf. hefur samið við Skýrr ehf. um fjölbreytta rekstrarþjónustu á sviði upplýsingatækni að því er segir í frétt frá Skýrr.

Í tilkynningunni kemur fram að innifalið í samningnum er innleiðing á Microsoft Exchange-pósthúsi og –hópvinnukerfi í miðlægu tölvuumhverfi með hnökralausu aðgengi, afritun, uppitíma og öryggi. Samhliða þessu mun Skýrr sjá um hýsingu á eigin kerfum Sparnaðar.

„Við vorum á höttunum eftir því að efla skilvirkni, sveigjanleika og öryggi í vinnuumhverfi okkar í upplýsingatækni, ásamt því að gæta fyllstu hagkvæmni á þessu sviði. Skýrr hefur áratugareynslu af rekstrarþjónustu í upplýsingatækni og uppfyllir strangar kröfur um afköst, áreiðanleika og þjónustu. Við höfum miklar væntingar til þessa nýja samstarfsaðila okkar í upplýsingatækni og teljum að við séum þar í góðum höndum," segir Gestur Breiðfjörð Gestsson, framkvæmdastjóri Sparnaðar.

„Microsoft Exchange í kerfisleigu er kjörin lausn til að auðvelda starfsfólki fyrirtækja að vinna sem ein heild í eigin vinnuumhverfi, óháð staðsetningu. Sparnaður er ungt og metnaðarfullt fyrirtæki og það er alltaf spennandi áskorun að veita kröfuhörðum viðskiptavinum fyrsta flokks þjónustu,” segir Þórólfur Árnason, forstjóri Skýrr í tilkynningu.

Innifalið í Microsoft Exchange-lausninni er að notendur fá aðgang að tölvupósti, dagatali, tengiliðalista, fundarboðum og skráasvæði, hvar og hvenær sem er.

Einnig er boðið upp á tölvupóst og dagatal í farsíma. Með kerfisleiguhögun eru notendur að vinna í eigin vinnuumhverfi, gögnum og hugbúnaði, en gera það í miðlægu tölvuumhverfi, sem er hýst og vaktað á búnaði hjá Skýrr allan sólarhringinn segir í tilkynningu.