Zurich Financial Services, eitt stærsta tryggingafélag heims, segir að hagnaður hafi hækkað nokkuð á fyrsta ársfjórðungi, þrátt fyrir óhagstæða gengisþróun og dýrt samkomulag við opinbera eftirlitsaðila í Bandaríkjunum.

ZFS lýsti því yfir í gær að hagnaður eftir skatta hefði hækkað um 1% og numið 785 milljónum dollara, eða 56 milljörðum íslenskra króna, þrátt fyrir að fyrirtækið hefði greitt 262 milljónir dollara til bandarískra yfirvalda til að binda enda á rannsókn á starfsemi félagsins.

Rannsóknin beindist að meintum vafasömum viðskiptaháttum fyrirtækisins í samstarfi við vátryggjendur, en neytendur eru taldir hafa orðið fyrir skaða vegna þeirra. Enn stendur yfir rannsókn bandaríska fjármálaeftirlitsins, SEC, og yfirvalda í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna.

Rekstrarhagnaður, sem fyrirtækið vill nota sem mælikvarða á frammistöðu, hækkaði um 31% og nam 1,36 milljörðum dollara, eða 97 milljörðum króna, þökk sé góðri niðurstöðu í grundvallarrekstri fyrirtækisins og aukinni framleiðni. ZFS hefur náð að lækka kostnað um milljarða dollara á ári með því að taka upp staðlaða vinnuferla og segist vera á góðri leið með að ná sparnaðarmarki ársins, sem hljóðar upp á hálfan milljarð dollara.

"Niðurstaða okkar á fyrsta ársfjórðungi er í takti við þá viðleitni okkar að bæta reksturinn sífellt og endurspeglar áhættudreift eignasafn okkar og hversu varanlegt rekstrarátak okkar er," segir James Schiro, forstjóri fyrirtækisins.