*

þriðjudagur, 25. júní 2019
Fjölmiðlapistlar 12. október 2018 13:09

Spartakus snýr aftur

„Sjálfstæði fréttastofu RÚV gagnvart öðrum deildum fyrirtækisins er algert og engin dæmi þess að eldveggurinn milli fréttastofu og auglýsingadeildar hafi verið rofinn.“

Andrés Magnússon
Höskuldur Marselíusarson

Það kom upp skrýtið mál í gær, þegar greint var frá því að Síminn hefði kvartað til Fjölmiðlanefndar vegna fréttar Ríkisútvarpsins (RÚV) í liðinni viku um uppbyggingu á hinu nýja Hafnartorgi. Síminn telur að fréttin sé dulin auglýsing, sem hafi verið óbeinn hluti af auglýsingapakka. Af því tilefni fór Síminn fram á að húsleit yrði gerð hjá RÚV til þess að skoða tölvugögn og fá fram óyggjandi niðurstöðu um hvort eitthvað sé gruggugt í málinu eða ekki.

Til frekari skýringar kom það fram í bréfi Símans að Hafnartorg hefði um miðjan síðasta mánuð leitað tilboða hjá ljósvakamiðlum um birtingu á rúmlega mínútu langri auglýsingu. Tilboði Símans hafi ekki verið tekið, en gengið til samninga við RÚV. Skömmu eftir að birtingar á auglýsingunni hófust hafi hins vegar verið sögð frétt af hinu skínandi fína Hafnartorgi, en það telur Síminn staðfesta „óheppileg og reyndar ólögleg tengsl auglýsingasölu og dagskrárgerðar hjá Ríkisútvarpinu“, sem Síminn hefur haft orð á áður. Rétt er að taka fram að í bréfi Símans felst ekki ásökun um beina samninga um fréttaumfjöllun, heldur að sameiginlegur skilningur hafi komist á um liðlegheit við auglýsingadeild eða almannatengla.

Í frétt RÚV um málið í gærkvöld hafnaði Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri RÚV, þessu með öllu og sagði um atvinnuróg að ræða:

„Sjálfstæði fréttastofu RÚV gagnvart öðrum deildum fyrirtækisins er algert og engin dæmi þess að eldveggurinn milli fréttastofu og auglýsingadeildar hafi verið rofinn.“ Nú bíður maður bara eftir að hver starfsmaður RÚV á eftir öðrum spretti á fætur og hrópi til þjóðar sinnar: „Ég er Spartakus!“ Það er nefnilega vandinn, að RÚV er ekki með fyllilega hreina áru að þessu leyti. Menn þekkja vel hvernig ýmis málefni RÚV geta fengið forgang í fréttatíma, dagskrárkynningar á dýrum dagskrárliðum eru stundum dulbúnar sem fréttir, þær íþróttadeildir sem RÚV hefur sýningarrétt á þykja fréttnæmari en aðrar o.s.frv. Að ógleymdum honum Spartakusi, sem mun vera Ríkisútvarpinu til ævarandi hneisu.

Til upprifjunar þá flutti RÚV á sínum tíma frétt um téðan Guðmund Spartakus og atvinnuhagi hans í Suður-Ameríku, sem það síðan virtist vera óvisst um hversu tryggar heimildir væru fyrir þegar maðurinn stefndi RÚV. Fréttastofan dró þó fréttina aldrei til baka, heldur samdi við hann utan réttarsala um greiðslu 2½ milljón króna bóta vegna fréttarinnar, án þess að játa sök og án þess að vilja greina neinum frá efni samningsins og bar ranglega við trúnaði við Spartakus. Með þessu gerði RÚV það að fjárhagslegu samningsatriði hvort fréttaflutningur er réttur eða rangur. – Hafi fréttin verið röng, þá átti að upplýsa almenning um það og draga fréttina til baka, en væri hún rétt og vinnubrögðin í stakasta lagi, þá átti fréttastofan að standa við fréttina og ekki borga manninum túskilding með gati. Því fyrir fjölmiðil –  ekki síst ríkisfjölmiðil með sínar sérstöku lagaskyldur – má sannleikurinn ekki vera samningsatriði.

Fjölmiðlarýnir hefur ekki forsendur til þess að meta hvað hæft er í kæru Símans, en hann hefur forsendur til þess að meta afdráttarlausa neitun Rakelar. Hún er einskis virði, því um leið og menn láta trúverðugleikann fyrir nokkra skildinga, þá er hann farinn.

                                                                ***

Þáttur Kveiks um aðbúnað og kjör erlends verkafólks í Ríkissjónvarpinu á dögunum vakti mikla athygli, þó vissulega hafi líka mátt finna að einu og öðru í honum eins og gengur. Fjölmiðlarýnir hnaut til dæmis um sérkennilegt viðtal við eftirlitsmann á Landsímareitnum, sem virtist hvorki vel kunnugur vinnusvæðinu né tala af fullkominni alvöru, hann fékk samt að láta óðan móðan mása, sem reyndist ekki koma staðreyndum málsins við. Þegar það var svo leiðrétt af starfsmanni var ekkert gert með það, sennilega af því að sprelligosinn var betra sjónvarp. En það er hvorki sanngjarnt gagnvart málsaðilum, umfjöllunarefninu né áhorfendum. Eins tók Brimborg til varna og mótmælti umfjölluninni mjög eindregið, en ritstjórn Kveiks svaraði svona heldur mjelkisulega. Það var ekki nógu gott og grefur bæði undan þættinum og umfjöllunarefninu. Að óþörfu, sýnist manni.

                                                                ***

Hins vegar er rétt að nefna uppástungu sem Gunnar Smári Egilsson átti varðandi þennan þátt Kveiks, en það var að hann yrði þýddur á erlendar tungur og þannig aðgengilegur á netinu. Þegar haft er í huga að fólk af erlendum uppruna slagar hátt í 10% landsmanna, er rétt að ræða hvort ekki sé rétt eða nauðsynlegt að Ríkisútvarpið, með sitt sérstaka hlutverk og skyldur, sinni þeim ekki á einhvern hátt. Fyrir því eru hins vegar engar heimildir í lögum um RÚV. Væri ekki rétt að huga að slíku, a.m.k. hvað varðar fréttir og það efni, sem á sérstakt erindi við fólk af erlendu bergi brotið. Enskan er alþjóðlegt mál, en vel mætti athuga hvort ekki væri ástæða til þess að þýða efni á pólsku einnig. RÚV hefur að lögum sérstakar skyldur við íslenskuna, eins og vera ber. Það þýðir hins vegar ekki að vanrækja eigi stóra minnihlutahópa í samfélaginu.

                                                                ***

Fjölmiðlarýnir rak augun í það í liðnum mánuði að einhverjir ömuðust við frétt Heimis Más Péturssonar, þar sem hann gerði það að fréttapunkti að það hefði verið samkynhneigt par frá Ítalíu, sem fyrst fór endurgjaldslaust í gegnum Hvalfjarðargöngin. Það er einkennileg smámunasemi. Nú er Heimir Már vitaskuld að góðu kunnur fyrir störf sín að hinseginmálum, og kannski það hafi haft áhrif á það hvað hann dró fram í fréttinni. En það er aukaatriði. Það sem Heimir Már var að gera með þessu var að finna mennskan flöt á annars einstaklega flatneskjulegri frétt um að ekki sé lengur verið að gera eitthvað einhvers staðar. Hefðu efni verið til þess hefði hann allt eins getað sagt „níræður hagyrðingur fyrstur í gegnum göngin“, „brúðhjón að norðan riðu á vaðið“ eða „bæjarstjórarnir fóru fyrstir frítt um göngin“ eða hvað annað. Bara eitthvað sem ekki fól í sér orðið gjaldskýli. En það voru ítalskir hommar sem voru fyrstir, svo hann sagði það. Og hvað? En ekki hvað?!

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is