„Í ljósi aðstæðna er allt að því spaugilegt að lesa tveggja ára gamlar fréttir af starfsháttum gömlu bankanna sem birtust hér á vefnum.“

Þetta kemur fram á vef Neytendasamtakanna og er þarna átt við þann vef.

Þar er í dag fjallað um sölu- og auglýsingaaðferðir Landsbankans annars vegar og Kaupþings hins vegar.

Í fyrri sögunni er fjallað um „saklausa viðskiptavini Landsbankans sem lentu í klóm starfsmanna sem höfðu greinilega fengið þau skilaboð að ofan að leggja áherslu á að ná peningum inn í bankann,“ eins og það er orðað á vef Neytendasamtakanna.

Í þeirri seinni beinist gagnrýnin á Kaupþing og segja Neytendasamtökin á þessum tíma (fyrir um tveimur árum) hafi bankarnir verið „óstöðvandi í að búa til nýjar og einkennilegar „afurðir“ sem síðan voru auglýstar rækilega með tilheyrandi kostnaði,“ eins og það er orðað á vef samtakanna.

Sögurnar fylgja hér óbreyttar og eru teknar af vef Neytendasamtakanna:

Sölumennska á þinn kostnað

Neytendasamtökunum hafa borist nokkrar ábendingar frá viðskiptavinum Landsbankans. Nú bregður svo við að þegar viðskiptavinir bankans hringja til að fá uppgefna stöðu eða láta millifæra upphæðir eru þeir spurðir hvort þeir vilji ekki leggja í sparnað.

Einn viðskiptavinur sagðist þegar vera með sparnað hjá bankanum en þá spurði starfsmaðurinn hvort hann vildi ekki spara enn meira.

Starfsmaður Neytendasamtakanna fékk sömu þjónustu eftir að millifærslubeiðni fór fram í símtali. Starfsmaður bankans hélt honum í 10-15 mín. á kynningu um sparnaðarleiðir og hafði um leið aðgang að sögu viðskiptavinarins þar sem hann hafði gefið upp kennitölu vegna upphaflega erindis síns.

Starfsmaður bankans var mjög ýtinn og vildi helst ganga frá breytingum strax en viðskiptavinurinn vildi að sjálfsögðu fá frest til að skoða betur stöðuna.

Þetta er mjög merkileg þróun, sérstaklega þar sem viðskiptavinir bankans eru að kaupa þjónustu af bankanum, (upplýsingar um stöðu og millifærslubeiðni kosta 95-100 krónur) en lenda í sölumennsku sem þeir báðu ekki um. Það eru auk þess viðskiptavinirnir sem borga símtalið.

frétt á vef NS: 13. nóv. 2006

Og meira af sparnaði

KB banki auglýsir nýja sparnaðarleið „Þegar“ og hafa auglýsingarnar vakið athygli og sitt sýnist hverjum.

Ein auglýsingin sýnir strætisvagnabílstjóra sem gengur út úr vagninum að því er virðist í miðri áætlun og er þar með hættur að vinna. Eftir sitja farþegarnir forviða en skilaboðin virðast einna helst vera þau að ekki sé á strætó treystandi.

Önnur auglýsing virðist fara meira fyrir brjóstið á fólki en í henni má sjá leikfimikennara sem hættir í miðri kennslustund og skilur börnin eftir í reiðileysi. Eitt barnið hangir meira að segja í kaðli en vonandi eru aðrir ábyrgari starfsmenn á staðnum sem koma barninu til hjálpar.

Þetta verða að teljast harla sérkennileg starfslok. Hvað varð eiginlega um að ljúka starfsferlinum á ábyrgan hátt og jafnvel kveðja samstarfsmenn?

Vonandi þurfa viðskiptavinir bankans ekki að eiga von á að starfsmenn bankans rjúki á dyr þegar minnst varir.

frétt á vef NS: 13. nóv. 2006