Frumniðurstöður rannsóknar á áhrifum Unloader One spelkunnar frá Össuri hf. á verki og virkni sjúklinga með slitgigt í hné sýna marktækan mun á líðan þeirra einstaklinga sem notuðu spelkuna.

Þá eru vísbendingar um allt að 25-30% minni notkun verkja- og bólgulyfja hjá þeim sem notuðu spelkuna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Össuri en Þorvaldur Ingvarsson læknir kynnti frumniðurstöður rannsóknarinnar á Læknadögum í morgun.

Þar kemur fram að rannsóknin hefur staðið yfir í eitt og hálft ár og hafa um eitt hundrað Íslendingar tekið þátt í henni. Fyrstu niðurstöður eru samkvæmt tilkynningunni mjög jákvæðar en þær sýna að Unloader One spelkan minnki  til muna verki og auki hreyfigetu þeirra slitgigtarsjúklinga sem nota spelkuna. Þá eru dæmi um að einstakir sjúklingar, sem þjáðst hafa af mjög slæmri slitgigt, geti seinkað aðgerð á hné með notkun spelkunnar.

„Unloader One spelkan veitir nýja möguleika við meðferð á slitgigt í hjám og er sérstaklega hönnuð til að draga úr álagi á slitnum liðflötum. Spelkan veitir hnénu stuðning og er minni að umfangi og léttari en hefðbundnar hnéspelkur,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að talið er að um 60.000 Íslendingar þjáist af slitgigt. Orsakir slitgigtar eru að mestu óþekktar en slitgigt veldur því að brjósk í liðum slitnar öðrum megin, og stundum báðum megin, í hnjáliðunum.

Einkenni slitgigtar felast í verkjum, stífleika og bólgum og sársauka framan í hné við göngu í stiga og í halla. Sífellt yngri einstaklingar greinast með slitgigt og geta þeir þurft að fara oftar en einu sinni í hnjáskiptiaðgerð. Tíðni slitgigtar eykst með aldrinum.

„Frumniðurstöður þessarar rannsóknar eru mjög jákvæðar, bæði fyrir þá sem þjást af slitgigt og fyrir okkur hjá Össuri. Unloader One spelkan er árangur margra ára rannsóknar- og þróunarvinnu hjá okkur og það er ánægjulegt að sjá árangur þeirrar vinnu nú,“ segir Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar í tilkynningunni.