Spenna virðist hafa myndast á vinnumarkaði og launaskrið er líklegt á næstu misserum í því ljósi. Skráð atvinnuleysi var 2,2% af mannafla í maí samkvæmt tölum sem Vinnumálastofnun birti í gær. Hefur skráð atvinnuleysi því minnkað lítillega frá fyrri mánuði þegar það var 2,3% en á sama tíma í fyrra var það 3,3% af mannafla. Samhliða miklum hagvexti hefur atvinnuleysi minnkað verulega að undanförnu og þegar litið er til árstíðarsveiflu má reikna með að atvinnuleysi sé nú aðeins um 2,1% af mannafla.

Verðbólguþrýstingur sökum launaskriðs gæti aukist á næstu misserum vegna spennu á vinnumarkaði sem bætist nú ofan á þann eftirspurnarþrýsting sem þegar er til staðar.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.