Samskiptamiðillinn mun birta afkomutölur sínar fyrir árið liðna í dag, en hlutabréfaverð félagsins hefur farið lækkandi síðan það var skráð á markað. Mikil pressa er á framkvæmdastjóra Twitter, Jack Dorsey, bæði frá fjárfestum félagsins sem vilja sjá breytingar á miðlinum, jafnt sem frá notendum miðilsins sem hafa brugðist harkalega við fyrirætluðum breytingum.

Tilkynnt var um að Twitter myndi bæta inn nýju algrími fyrir fréttaveitur sínar, en það myndi taka saman vinsælustu tístin að hverju sinni. Notendur hafa lýst yfir mikilli vanþóknun hvað þessa fyrirtætluðu breytingu varðar, en mörgum finnst helsti kostur Twitter fram yfir Facebook liggja í því að fréttaveitan sé byggð á því að nýjustu tístin koma efst og ekki þau vinsælustu.

Hlutabréfaverð félagsins hefur hrunið um nánast 70% á undanliðnu ári, en  viðskipti með hlutabréf Twitter í dag hafa orðið til þess að gengi bréfanna hefur hækkað um tæp 2%. Óvíst er hvernig gengið þróast á morgun, eftir að afkoman er birt, en það hlýtur að fara eftir því hvernig afkoman er svo eftir allt saman.