„Ég á von á því að þetta veki ekki mikla kátínu,“ segir Þórður Bjarni Guðjónsson, aðalræðismaður Íslands í Færeyjum um þær fréttir að viðskiptabann Evrópusambandsins á Færeyinga tekur gildi í næstu viku.

Á blaðamannafundi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem haldinn var í morgun kemur fram að löndunarbannið felur í sér viðskiptabann á síld og síldarafurðir. Einnig verður löndunarbann á færeysk skip í ríkjum Evrópusambandsins.

Þórður Bjarni er staddur í sumarfríi á Íslandi og hafði ekki haft tök á því að kynna sér viðbrögð Færeyinga. „Þetta er búið að liggja í loftinu í svolítinn tíma. En það er spennandi að fylgjast með hvað verður,“ segir Þórður Bjarni.