Orf líftækni stendur á tímamótum um þessar mundir og ef fram fer sem horfir verður vöxtur fyrirtækisins í ár um 30%, þökk sé meginvörumerki fyrirtækisins, BIOEFFECT. Að sögn Frosta Ólafssonar, forstjóra fyrirtækisins eru spennandi tímar framundar þar sem það mun m.a. í auknu mæli sækja inn á erlenda markaði.

Búa til verðmæti í gegnum vísindi

Það kannast flestir við nafnið ORF líftækni en það eru kannski ekki allir sem átta sig á raunverulegu hlutverki fyrirtækisins, gætir þú útskýrt það aðeins nánar?

„Já, það er kannski ekkert skrýtið þó að það sé framandi fyrir þá sem standa fyrir utan fyrirtækið. Verkefnið okkar felst í að búa til verðmæti og bæta lífskjör í gegnum vísindi, sköpunarkraft og byggplöntuna. Í sinni einföldustu mynd framleiðum við prótín í gegnum erfðabreytt bygg.

Það má segja að byggið sé í hlutverki verksmiðjunnar, en okkur hefur tekist að afrita prótín af ýmsu tagi inn í genamengi plöntunnar. Þessi prótín hafa notagildi á ýmsum sviðum og við getum í raun framleitt mjög breiða flóru af þeim, en fram til þessa höfum við lagt mesta áherslu á svokallaða vaxtaþætti. Þeir hafa síðan verið nýttir í stofnfrumurannsóknir og snyrtivörur.

Meginþorri tekna fyrirtækisins kemur í dag frá BIOEFFECT vörulínunni okkar, eða um 90%. Það þarf auðvitað meira til en góð vísindi til að ryðja sér til rúms á snyrtivörumarkaði og höfum við því í stigvaxandi mæli verið að efla markaðs- og sölustarfsemi fyrirtækisins. Við seljum vaxtaþætti til notkunar í rannsóknastarfemi undir vörumerkinu Isokine en þess fyrir utan erum við með þó nokkuð mörg þróunarverkefni í gangi. Þau miða að því að nýta byggframleiðslukerfið okkar til að framleiða prótín sem geta haft notagildi fyrir fjölmarga ólíka hluti eins og húðvörur, hárvörur, heilbrigðisvörur, dýrafóður og matvæli.

Fyrir mér er þetta fyrirtæki sérstaklega áhugavert þar sem hér mætast mjög ólíkir heimar. Við erum annars vegar með vísindaheiminn og alla snillingana okkar á því sviði og svo erum við hins vegar með markaðs- og sölusnillingana en eðli þessara verkefna er ákaflega ólíkt. Vísindin byggja alfarið á staðreyndum á meðan markaðs- og sölustarf gengur meira út áupplifun og ímynd. Í okkar tilfelli reynum við að fella þessa tvo hluti saman og í því felst einn helsti styrkleiki fyrirtækisins. Þegar þessir ólíku heimar mætast náum við að virkja sköpunarkraft vísindanna á sama tíma og við byggjum markaðsstarfið á staðreyndum og vísindalegum grunni. Til viðbótar við upphaflegan vísindagrunn fyrirtækisins hefur Orf náð að byggja upp mikla þekkingu á sviði húðrannsókna, efnablöndunar og framleiðslu húðvara og alþjóðlegu markaðs- og sölustarfi.“

Öflug innreið á Bandaríkjamarkað

Hvernig blasir nánasta framtíð við Orf líftækni?

„Það má segja að við séum að búa okkur undir að geta vaxið enn frekar og liður í því er að styrkja fyrirtækjainnviðina t.d. með því að flytja í þessa nýju aðstöðu. Við erum nýbúin að ljúka ríflega 200 milljóna króna hlutafjáraukningu þar sem núverandi hluthöfum bauðst að auka við hlutafé sitt í félaginu. Útboðið gekk mjög vel og skráningar fyrir hlutum voru langt umfram útgefna hluti. Þetta fjármagn er fyrst og fremst nýtt til standa undir þeim vexti sem við höfum verið að ná á undanförnum árum og knýja áframhaldandi vöxt á næstu árum.

Það má segja að stærsta skrefið þar sé innreið BIOEFFECT inn á Bandaríkjamarkað. Við erum þegar komin með vörurnar okkar í sölu innan Bandaríkjanna í gegnum heimasíðuna okkar og það hefur gengið afskaplega vel á fyrstu metrunum. Við erum að sjá ríflega tvöföldun í sölu á milli ára og í lok árs gerum við ráð fyrir að hefja sölu á vörunum okkar í verslunum þar ytra. BIOEFFECT vörumerkið er búið að ná þannig fótfestu erlendis að við erum að ná að koma vörunum í bestu búðirnar á flestum mörkuðum og Bandaríkin eru engin undantekning hvað það varðar.“

Viðtalið má lesa í heild sinni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.