"Ég er nú búinn að vera nokkuð lengi í þessu starfi og ákvað að færa mig um set enda spennandi verkefni," sagði Gísli Gíslason, bæjarstjóri á Akranesi, sem hefur verið ráðinn sem hafnarstjóri Faxaflóahafna. Hann tekur við nýju starfi 1. nóvember næstkomandi um leið og hann hættir sem bæjarstjóri á Akranesi.

Velta Faxaflóahafna er vel á annan milljarð króna og þar vinna 60 starfsmenn. Gísli sagði að eftir að ákveðið hefði verið að búa til þetta nýja félag utan um hafnir Faxaflóasvæðisins hefði verið ljóst að þar væri að skapast áhugavert tækifæri. "Hafnir hafa alltaf gengt lykilhlutverki í uppbyggingu á svæðinu og það verður ekki síður með tilkomu þessa nýja félags. Menn þurfa að horfa á rekstur þessa félags í nýju ljósi og þetta er mjög spennandi verkefni," sagði Gísli.