Það var nánast sem menn fengju framan í sig kalda vatnsgusu þegar þeir hlustuðu á hagfræðiprófessorinn Robert Aliber fjalla um eignabóluna á Íslandi og mála ansi hreint dökka mynd af stöðu efnahagsmála á Íslandi.

Það má segja að það hafi verið einkar vel við hæfi að gjósa og frussast skyldi hressilega upp úr kókflösku Roberts Aliber prófessors þegar hann greip til hennar í upphafi fyrirlestrar síns um eignabólur og eignabóluna hér á landi.

Skilaboð þau sem hann flutti í fundarsalnum á Háskólatorginu voru líka algerlega skýr; mikil eignabóla, bæði á fasteigna- og hlutabréfamarkaði, hefur myndast hér á Íslandi og nú er loftið að fara úr henni. Það mun hreint ekki ganga sársaukalaust fyrir sig og afar erfiðir tímar fara í hönd.

Myndin sem Aliber dró upp af ástandinu hér, stöðu bankanna og af því sem hann telur í vændum í efnahagslífinu, var það dökk að ekki var laust við að áheyrendum brygði í brún.

Enda var það svo að þessar óþægilegu bersöglisvísur voru kveðnar af manni sem hefur um áratuga skeið fylgst með og heimsótt fjölmörg þeirra landa sem á umliðnum árum og áratugum hafa þurft að þola afleiðingar af slíkum eignabólum.

Robert Aliber er prófessor emeritus í alþjóðahagfræði og fjármálum við viðskiptaháskólann í Chigaco.

_____________________________________

Nánar er fjallað um fyrirlestur Aliber í Viðskiptablaðinu á morgun. Áskrifendur geta, frá kl. 21 í kvöld lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .