Svein Harald Øygard, sem gegndi stöðu seðlabankastjóra Íslands árið 2009, var í vikunni tilnefndur til stjórnarformennsku norska flugfélagsins Norwegian. Hann varð fyrir valinu af tilnefningarnefnd flugfélagsins til að taka við af Niels Smedegaard sem hefur leitt stjórnina síðustu ár.

„Ég er þakklátur, auðmjúkur og virði áskorunina,“ skrifar Svein í færslu á Facebook. „Já það er mögulegt að hafa tilfinningatengsl við fyrirtæki. Þrátt fyrir bakslögin, þá hef ég verið hrifinn af því sem Bjørn Kjos forstjóri og Norwegian teymið hefur byggt upp.“

Mikil endurskipulagning á sér nú stað hjá Norwegian sem hefur glímt við mikla rekstrarörðugleika, sér í lagi eftir að faraldurinn hófst, og hafa hlutabréf félagsins lækkað um meira en 99% frá því í nóvember 2018. Í janúar síðastliðnum tilkynnti Norwegian að það myndi hætta Ameríkuflugi og öðrum lengri flugleiðum og einbeita sér frekar að flugi á Norðurlöndunum og Evrópu en félagið hefur verið einn helsti keppinautur íslenskra flugfélaga á Atlantshafsmarkaðnum.

„Fáir hafa eytt meiri tíma um borð flugvéla en ég. Ég hef alltaf notið blöndunnar af gæðum, jákvæðri menningu og upplifun hjá Norwegian. Það angraði mig alltaf verulega þegar SAS neyddi mig til að fljúga í gegnum Kastrup og Arlanda, og var ánægður þegar Norwegian bauð upp á betri valkosti. Önnur flugfélög mega reyna að handvelja og þéna á aðlaðandi áætlunarleiðum. En, þetta er ekki það sem Noregur, Norðurlöndin og viðskiptavinir okkar þurfa,“ skrifar Svein Harald.

„Fluggeirinn er gífurlega erfiður að eiga við. Að því er talið er hefur ekkert kjarnaflugfélag (e. flag carrier) nokkurn tímann skilað jákvæðri afkomu frá seinni heimsstyrjöldinni. Sem hagfræðingur hef ég þó áhuga á öllum þeim þáttum sem hægt er að bæta og gera hagkvæmari nú þegar Norwegian er að fara á loft á ný.“

„Þetta verður spennandi ferðalag. Velkomin um borð í næsta flug ykkar hjá Norwegian,“ segir Svein Harald að lokum.