Kvikmyndaleikstjórinn Steven Spielberg hyggst safna ríflega einum milljarði dollara hjá fjárfestum, yfir 78 milljörðum króna, í því skyni að endurheimta sjálfstæði Dreamworks sem félags sem á að fullu þær myndir sem það framleiðir.

Spielberg stofnaði afþreyingarframleiðslufélagið Dreamworks árið 1994 með kvikmyndaógúlunum Jeffrey Katzenberg og David Geffen en þeir seldu það síðan Viacom, móðurfélagi Paramount, árið 2005. Dreamworks hefur framleitt eða dreift yfir tug kvikmynda sem hafa halað inn meira en 100 milljón dollara í Bandaríkjunum. Vinsælasta mynd fyrirtækisins til þessa var teiknimyndin Shrek 2. Á starfstíma sínum hefur fyrirtækið tvívegis rambað á barmi gjaldþrots og þegar Viacom keypti félagið fyrir um 1,6 milljarð dollara var innifalið í þeirri upphæð yfirtaka á skuldum fyrir um 400 milljónir dollara. Viacom seldi myndasafn félagsins til  fyrirtækis í eigu fjárfestisins George Soros fyrir 900 milljónir dollara vorið 2006.

Dreifingarrétturinn seldur hæstbjóðendum

Þó að Paramount eigi myndir sem Dreamworks hefur framleitt, svo sem unglingasmellinn Transformers, þá gætu ákvæði í samningum Spielberg er varða réttinn á framhaldsmyndum kallað á víðtækt samningaþóf um hvaða verkefni hann má hafa á brott með sér og hver sitji eftir.

Samkvæmt frétt Reuters vildi Spielberg losa tök Paramount af Dreamworks og semja við Universal um dreifingu á kvikmyndum félagsins, en hefur þess í stað ákveðið að selja réttinn hæstbjóðendum. Auk Paramount koma helst Universal, Disney og Fox til greina.

Laus úr viðjum árið 2010

Að auki rennur samningur Spielbergs við Paramount út síðla árs 2010 og eru þegar komnar á kreik kviksögur um að hann hyggist ekki endurnýja hann heldur leyfa öðrum framleiðendum að njóta krafta sinna. Þá verður hann 64 ára gamall.