Jordan Spieth er fæddur árið 1993 en hann náði þeim ágæta árangri í gær að sigra Masters. Hann varð með því næst yngsti sigurvegarinn í sögu keppnarinnar, fimm mánuðum eldri en Tiger Woods var þegar hann sigraði keppnina árið 1997.

Jordan er með eindæmum viðkunnalegur og kurteis sem gerir hann að mjög álitlegum kosti sem næsta golfstjarna Bandaríkjanna en eins og kunnugt er hefur hallað undir fæti í vinsældum Tiger Woods. Margir hafa horft hýrum augum til Jordans sem arftaka hans sem næsta stórstjarna í íþróttinni. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg .

Samkvæmt Bob Dorfman gæti Jordan aukið tekjur sínar um allt að 10 milljónum dollara á ári með auglýsingatekjum. „Hann er í mjög góðri stöðu miðað við ungan aldur, framtíðin hans svipar ansi mikið til Tiger Woods eins og staðan er núna. Hann er mjög fýsilegur kostur fyrir mikið af vörumerkjum, sérstaklega golfvörumerkjum sem eru að reyna að höfða til ungs fólks.“

Sigurinn í gær skilaði Spieth 1,8 milljónum dollara í tekjur. Jay Danzi, umboðsmaður hjá Lagardere Unlimited segir að Spieth sér draumur allra markaðsmanna, allt sem Spieth geri er heiðarlegt og einlægt.

Forvitnilegt verður að sjá hvaða vörumerki mun klófesta piltinn. Á Masters spilaði Spieth í Under Armour frá toppi til táar. Auk þess skrifaði Spieth undir samning við AT&T eftir Masters mótið í fyrra en hann er fyrsti golfarinn til að bera merkið á golfpoka sínum síðan Tiger Woods bar það.