Evrutilraunin er dæmd til þess að mistakast að óbreyttu og Seðlabanki Evrópu er kominn að ystu þolmörkum. Slíkar viðvaranir eru ekki nýjar af nálinni og hafa raunar svo oft verið þuldar að margir eru orðnir ónæmir fyrir þeim. En þegar þýski peningamálaprófessorinn Otmar Issing, fyrsti aðalhagfræðingur Seðlabanka Evrópu og einn af helstu hugmyndafræðingum hins sameiginlega gjaldmiðils, tekur svo til orða þá hlusta menn. „Einn dag mun þessi spilaborg hrynja,“ var meðal þess sem Issing sagði í viðtali við Central Banking á dögunum, en það er eitt vinsælasta tímarit seðlabankaheimsins. Hann sagði að evran hefði verið svikin í tryggðum af stjórnmálunum, harmaði að tilraunin hefði mistekist allt frá upphafi en hefði síðan úrkynjast í fjármálapólitísk áflog, þar sem engin fantabrögð væru undanskilin. „Ef við leggjum kalt mat á framhaldið, þá mun evran böðlast áfram, skjögrandi frá einni kreppunni til hinnar næstu. Það er erfitt að spá fyrir um hversu lengi það mun ganga þannig til, en það getur ekki gengið að eilífu.“

Engin tæpitunga

Svo tvímælalausar og berorðar lýsingar eru ekki algengar í seðlabankaheiminum yfirleitt, allra síst úr munni virts og grandvars grá- skeggs eins og Issings prófessors. Þvert á móti eru menn vanir allnokkurri tæpitungu á þeim vettvangi, svo sumir hafa spurt hvað prófessorinn hafi látið ósagt! Hvað sem því líður eru orð Issings þörf áminning um að undirstöður Evrusvæðisins eru enn í tómu tjóni, þó göróttur kokteill ódýrrar olíu, ódýrrar evru, tryllingslegrar seðlaprentunar og linunar í ríkisfjármálum á Evrusvæðinu hafi deyft sársaukann undanfarin misseri. Það er farið að renna af mönnum og timburmennirnir ekki langt undan. Varla leikur nokkur vafi á því að Evrusvæðið á enn frekari þolraun eftir í næstu niðurveiflu í hagkerfi heimsins. Þegar þar að kemur verður það alls óbúið undir erfiðleikana, sligað af skuldum og atvinnuleysi, að ógleymdri pólitískri þreytu og félagslegri ólgu.

Helstu stofnanir ESB fordæmdar

Issing prófessor úthúðaði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sagði hana pólitíska ókind sem gefist upp á að framfylgja grundvallarreglum sambandsins í öllum meginatriðum. „Freistnivandinn er yfirþyrmandi,“ segir hann um kommissara framkvæmdastjórnarinnar. Hann var engu mjúkmálli um Seðlabanka Evrópu, sem hann segir vera á hálli braut til Heljar og hafa í raun eyðilagt hið sameiginlega myntkerfi með því að koma gjald- þrota ríkjum til bjargar þvert á vinnureglur bankans, lög og undirliggjandi milliríkjasáttmála. „Stöðugleikabandalagið hefur meira og minna misheppnast og agi á markaði var látinn lönd og leið með afskiptum Seðlabanka Evrópu. Fyrir vikið eru engin fjármálaleg stjórntæki lengur tiltæk, hvorki markaðsleg né pólitísk,“ sagði Issing og bætti við: „Þetta er allt sem þarf til þess að framkalla hamfarir fyrir myntsamstarfið.“ „Klásúlan sem bannar að Seðlabanki Evrópu hlaupi undir bagga með gjaldþrota ríkissjóðum er þverbrotin daglega,“ segir Issing. Hann vísar úrskurðum Evrópudómstólsins um að þær ráðstafanir séu lögmætar á bug og segir þá einfeldningslega og dómarana blindaða af Evrópuhugsjóninni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að ýta á hlekkinn Tölublöð.