Spilahallarmál Willums Þórs Þórssonar og tólf annarra þingmanna er ekki komið á dagskrá Alþingis. Frumvarpið var lagt fram þann 24. september síðastliðinn.

Willum kveðst sannfærður um að frumvarpið verði tekið til umræðu á þinginu. „Já, ég er bjartsýnn á það. Ég held að þegar fólk fer að lesa frumvarpið og kynna sér um hvað það fjallar þá fær það meiri meðbyr,“ segir hann.

Hann segir helstu kosti þess vera þá að um málaflokkinn yrði sett almenn umgjörð, en starfsemin fari fram undir yfirborðinu eins og sakir standa. Með því mætti hafa af henni skatttekjur, sem nýttust meðal annars til forvarnamála sem tengist spilafíkn.

„Þetta er líka ferðaþjónustumál og snýst um afþreyingu fyrir túrista. Það er líka mjög mikilvægt ef það myndi rísa eitt slíkt í Reykjavík,“ bætir hann við.