Verslunin Spilavinir mun á morgun opna í nýju 200 m2 húsnæði að Suðurlandsbraut 48 (bláu húsin). Spilavinir var stofnað haustið 2007 af þeim Svanhildi Evu Stefánsdóttur og Lindu Rós Ragnarsdóttur en verslunin hefur fram að þessu verið til húsa að Langholtsvegi.

Svanhildur Eva segir í samtali við Viðskiptablaðið að reksturinn hafi fram til þessa gengið vel enda hafi borðspil löngum verið vinsæl hér á landi.

„Við opnuðum haustið 2007 og höfum stækkað og dafnað síðan þá,“ segir Svanhildur Eva.

„Við vorum hvattar áfram með orðunum, „hafið engar áhyggjur, fólk spilar líka í kreppu“ þegar hrunið skall á og það hefur reynst rétt. Kreppan stoppaði okkur ekki. Þetta er rekstur þar sem við vinnum sjálfar í versluninni eins og eðlilegt er í litlu samfélagi. En við erum líka með gott fólk í kringum okkur sem skiptir miklu máli.“

Aðspurð um spilavenjur segir Svanhildur Eva að smáspilin séu ávallt vinsæl.

„Þau eru í fyrsta lagi ódýr en fólki finnst líka þægilegt að geta tekið þau með sér upp í bústað eða í farangur þegar það leggur í ferðalög. Síðan eru partýspilin líka alltaf vinsæl,“ segir Svanhildur Eva.

„Það er líka mjög algengt að fólk vilji gefa gjafir á verðbilinu 2.500 – 5.000 krónur þannig að við höfum lagt okkur fram við að bjóða upp á mikið úrval spila á því verðbili.“

Svanhildur Eva segir of lítið um ný íslensk spil á markaði þó svo að fram hafi komið mörg skemmtileg spurningaspil á síðustu árum. Ástæðuna fyrir því megi fyrst og fremst rekja til þess að íslenskar prentsmiðjur hafi lítið lagt sig fram við að prenta spil í góðum gæðum auk þess sem prentun hér á landi sé ekki samkeppnishæf því sem gerist erlendis.

„Mesta gerjunin er að eiga sér stað erlendis og við förum reglulega á sérstakar spilasýningar, sem eru í takt við bókamessur sem fólk þekkir vel,“ segir Svanhildur Eva.

„Það er margt líkt með bóka- og spilaútgáfu. Í stað rithöfunda ertu með hönnuði að spilunum en síðan ertu með útgefendur að hvoru tveggja sem skapa sér nafn með tímanum. Maður getur treyst því að spil frá ákveðnum útgefendum séu vönduð og í góðum gæðum sem skiptir miklu máli þegar fólk er að kaupa sér eitthvað sem það vill eiga til lengri tíma.“