Spítavítakeðjan Trump Entertainment Resorts, sem er í eigu bandaríska auðjöfursins Donald Trump hefur farið fram á greiðslustöðvun (e. chapter 11) en um áramót skuldaði félagið um 1,7 milljarð Bandaríkjadala.

Reuters fréttastofan greinir frá því í dag að félagið hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar undanfarin misseri en þann 1. desember síðastliðinn féll 53 milljóna dala lán á félagið sem ekki hefur verið greitt.

Donald Trump sagði sig úr stjórn félagsins í síðustu viku eftir átök við kröfuhafa félagsins sem hann segir að gangi fram af óþarfa hörku. Meðal annars sakaði Trump kröfuhafa félagsins um að nýta sér efnahagsástandið til að ganga að kröfum sem þegar hafi verið samið um.

Í tilkynningu sem Trump sendi fjölmiðlum í gærkvöldi kemur fram að tekjur félagsins hafi dregist verulega saman og fyrirliggjandi rekstrarerfiðleikar liggi fyrir vegna þess. Hann sagði jafnframt að eign hans í félaginu væri innan við 1% heildareigna hans og í framhaldinu tók hann fram að fjárfesting hans í félaginu væri verðlaus í dag.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem félag í eigu Trump fer í greiðslustöðvun en í nóvember 2004 fór hótelkeðja hans, Trump Hotels & Casino Resorts fram á greiðslustöðvun en félagið skuldaði þá tæpa 2 milljarða dali.

Mánuði áður en það gerðist hafði Trump tekist að semja við kröfuhafa félagsins um að breyta skuldum í hlutafé en samningurinn fól það engu að síður í sér að Trump sat áfram sem stjórnarformaður og forstjóri. Um mitt ár 2005 var félagið tekið úr greiðslustöðvun.

Árið 1992 fór spilavíti í eigu Trump í Atlantic City í greiðslustöðvun en þá skuldaði félagið um 1 milljarða dala. Trump tókst á nokkrum mánuðum að ná félaginu úr greiðslustöðvun eftir að hafa samið við kröfuhafa.