Nú þegar Barack Obama hefur tryggt sér forsetaembættið verður það ein af veigamestu ákvörðunum sem hann tekur hver skuli gegna embætti fjármálaráðherra í ríkisstjórninni. Það er ekkert smáræðis verkefni sem bíður hans en eins og bent er á í umfjöllun Reutersfréttastofunnar þarf ráðherrann að vera regluvörður, diplómat, verndari Bandaríkjadals og vörslumaður nánast tómra sjóða.

Ekki lítið verkefni, ekki síst í ljósi þess að hann þarf á sama tíma að finna út hvernig megi afstýra því að bandaríska hagkerfið renni inn í djúpstætt samdráttarskeið. Þegar á næstu vikum verður tekin ákvörðun um hvernig fjármálaráðuneytið muni nákvæmlega verja þeim 700 milljörðum Bandaríkjadala sem það fékk í sínar hendur til þess að bjarga fjármálakerfinu.

Það verður ekki gert nema í samráði við ríkisstjórn Obamas þó svo að hún taki ekki formlega við völdum fyrr en 20. janúar á næsta ári. Það sama gildir um hugsanlegt innlegg fráfarandi stjórnar á fundi leiðtoga 20 helstu iðnríkja heims sem haldinn verður um miðjan mánuð og er ætlað að fjalla um hina alþjóðlegu fjármálakreppu.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .