Íslandsdeild Transparency International sendi frá sér fréttatilkynningu á dögunum vegna birtingar niðurstaða mælinga á spillingu í flestum löndum heims árið 2020, með yfirskriftinni „Staða Íslands versnar enn samkvæmt alþjóðlegri mælingu á spillingu." Spillingarvísitalan (the Corruption Perception Index) er á bilinu 0 til 100 stig og mældist spillingarvísitala Íslands 75 stig árið 2020, samanborið við 78 stig árið 2019.

Í fréttatilkynningunni segir að spillingarvísitala Íslands hafi lækkað jafnt og þétt undanfarin ár og geri það enn milli ára nú. Í fréttatilkynningunni segir jafnframt að „fall Íslands niður spillingarvísitölulistann er mikið áhyggjuefni". Í þessu samhengi er rétt að geta þess að því lægri sem vísitalan er því meiri mælist spillingin.

Fregnir af stigvaxandi spillingu á Íslandi eru tilefni til að skoða mælinguna og forsendu hennar nánar. Líkt og fyrr greinir lækkaði spillingarvísitala Íslands árið 2020 um þrjú stig frá fyrra ári, úr 78 stigum í 75 stig. Samkvæmt gögnum vísitölunnar er talsverð staðalskekkja vegna mælinga spillingarvísitölu á Íslandi, en öryggisbil vísitölunnar hér á landi er 69 til 81 stig.

Með öðrum orðum er ekki marktækur munur á spillingarvísitölu Íslands milli ára.

Einn matsaðili af sjö sker sig úr

Vísitala hvers lands er reiknuð sem meðaltal stiga sem nokkrir matsaðilar gefa löndum vegna spillingar. Vægi stiga matsaðila er jafnt í vísitölunni, en fjöldi stofnana sem skila inn stigum fyrir hvert land er nokkuð misjafn. Í tilfelli Íslands er um sjö matsaðila að ræða en athygli vekur að sex þeirra gefa Íslandi stig á bilinu 72 til 87 á meðan ein stofnun, Bertelsmann Foundation, gefur Íslandi langt um færri stig, eða 44 stig af 100.

Falleinkunn Bertelsmann Foundation er því bersýnilega í hrópandi ósamræmi við stigagjöf allra annarra matsaðila sem meta spillingu á Íslandi til stiga í vístölunni. Á meðal annarra landa sem fá jafn mörg stig og Ísland hvað spillingu varðar í skýrslum Bertelsmann Foundation eru Mexíkó og Búlgaría, en þess má geta að spillingarvísitala í Mexíkó mælist 31 stig og í Búlgaríu mælist hún 44 stig, samanborið við 75 stig Íslands.

Stigagjöf Bertelsmann Foundation byggir á skýrslu stofnunarinnar sem nefnist „Sustainable Governance Indicators", hér eftir kölluð SGI. Stigin byggja á einum huglægum matsþætti skýrslunnar er varðar spillingu í viðkomandi landi, hvar metið er hvernig land og samfélag þess kemur í veg fyrir að embættismenn og stjórnmálamenn þiggi mútur, með því að koma á kerfi sem tryggir heilindi embættismanna, að því er fram kemur í skýrslu SGI.

Órökstudd lækkun stiga

Samkvæmt upplýsingum um aðferðafræði skýrslunnar á vefsvæði SGI meta tveir íslenskir sérfræðingar spillingu Íslands til stiga, hvor um sig út frá eigin huglægu mati, en sérstakur samræmingaraðili brúar bilin milli sérfræðinganna tveggja og á þannig að tryggja jafnvægi milli þeirra í skýrslunni. Aðrir sérfræðingar fara einnig yfir skýrsluna á síðari stigum, hvar þeir veita frekari endurgjöf vegna ósamræmis sem enn kann að vera í skýrslunni á síðari stigum og veita leiðbeiningar um lagfæringar á því í samráði við íslensku sérfræðingana. Sérstakt ráðgjafaráð (Advisory Board) fer yfir endanlega skýrslu og samþykkir.

Íslensku sérfræðingarnir tveir sem hafa metið spillingu á Íslandi til stiga í áraraðir eru Þorvaldur Gylfason, prófessor við Háskóla Íslands, og Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri. Báðir hafa þeir verið sérfræðingar SGI skýrslunnar um Ísland allt frá því SGI stigin urðu hluti af íslensku spillingarvísitölunni árið 2012, og lengur en það.

Athygli vekur að þrátt fyrir að stigagjöf SGI skýrslunnar um spillingu á Íslandi lækki um níu stig í spillingarvísitölunni, úr 53 stigum árið 2019 í 44 stig 2020, er lækkunin ekki rökstudd í skýrslu SGI. Skýringartexti með stigagjöf milli ára er í öllum meginatriðum efnislega sá sami, þrátt fyrir að lækkunin sé umtalsverð.

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri
© Auðunn Níelsson (Auðunn Níelsson)

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri. VB MYND/Auðunn Níelsson

Spilling mælst stöðug um árabil

Frá árinu 2012 hefur spillingarvísitala Íslands sveiflast milli 75 til 82 stiga, en heldur leitað niður á við í gegnum árin. Sé spillingarvísitala endurreiknuð án stigagjafar úr SGI skýrslunni sveiflast vísitalan á bilinu 79 til 83 stig frá árinu 2012, leitni er nær engin og ekki tölfræðilega marktækur munur á stigum Íslands á tímabilinu.

Þróun spillingarvísitölu Íslands 2012-2020
Þróun spillingarvísitölu Íslands 2012-2020

Stig SGI hafa hins vegar lækkað skarpt yfir tímabilið, úr 89 stigum árið 2012 niður í 44 stig árið 2020. Stig SGI hafa þannig drifið þá litlu lækkun sem orðið hefur á spillingarvísitölu Íslands frá árinu 2012, en frá árinu 2013 hefur ekki verið marktækur munur á vísitölubreytingum milli ára, en á því tímabili sveiflast vísitala Íslands á milli 75 til 79 stiga. Rétt er að taka fram í þessu samhengi að gögn vegna ársins 2017 voru ekki aðgengileg við greiningu þessa.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .