Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar Alþingis, segist hafa fengið ábendingar um spillingu í innkaupum hjá opinberum stofnunum. Þetta kom fram í Vikulokum á RÚV í gær. Sagði Vigdís m.a. hafa heyrt að ekki endi allar tölvur sem keyptar eru fyrir stofnanir hjá stofnununum sjálfum.

„Ég hitti margt fólk, það vita margir í hvaða starfi ég er. Það hafa margir komið að máli við mig. Eins og til dæmis það að það er gjarnan verið að taka tíu tölvur fyrir ríkið og eina heim,“ sagði Vigdís í Vikulokunum.

Hún vildi ekki nefna hvaða stofnanir væri um að ræða, en hún hyggst skrifa um þetta þegar hún hættir á þingi. Í þættinum var hún spurð hvort ekki væri um lögbrot að ræða sem þyrfti þá að kæra.

„Ég sagði að það væri ýmislegt sem ég væri búin að heyra í þessu máli. Ég sagði aldrei að það væri verið að fremja glæpi hjá ríkinu, ég sagði það ekki, en það er ýmislegt í gangi þarna.“