Thorbjørn Jagland, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, flutti á dögunum erindið Öryggi í lýðræðisríkjum eftirlitskerfi mannréttindasáttmálans – áskoranir í Evrópu á fundi sem haldinn var í samvinnu Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands, utanríkisráðuneytisins og Lögfræðingafélags Íslands. Þar fjallaði hann um sáttmála Evrópuráðsins gegn spillingu og nefndi að spillingin í Úkraínu hefði gert Rússum kleift að ráðast inn.

Úkraína ætti að vera eitt ríkasta land Evrópu

Í erindi sínu vék Jagland að Úkraínu. Hann nefndi það að þar hefði ríkt mikil spilling, þar var hvorki sjálfstætt dómskerfi né þing og auðjöfar vildu sæti á þingi til að verða ekki dæmdir. Þingmenn þurftu ekki einu sinni að mæta á þing til að kjósa, heldur sendu bara fulltrúa. Margir auðjöfrar stýrðu einnig fjölmiðlum í landinu. Í Úkraínu var því mikil spilling, óstjórn, misnotkun á valdi og enginn tók ábyrgð. Jagland færði rök fyrir því að Úkraína ætti að vera eitt ríkasta land Evrópu þar sem þar væri besti jarðvegur álfunnar. Fyrir tuttugu árum voru íbúar Úkraínu og Póllands og verg landsframleiðsla þeirra svipuð. Síðan þá hefur bilið breikkað mikið milli landsframleiðslu í löndunum tveimur. Jagland telur að rekja megi þetta til þess að úkraínska þjóðin var mjög veikburða og traust svo lágt að bylting skall á. Hann telur að veikleikar úkraínska stjórnkerfisins og spillingin í landinu hafi gert Rússum auðvelt fyrir að ráðast með ólöglegum hætti inn í Úkraínu. Ef til vill hefði þetta farið eins og þetta fór þó Úkraína hefði verið sterkari, hins vegar sé hægt að staðhæfa að þegar þjóð er veikburða og þar ríkir ekkert traust sé það mjög viðkvæmt gegn árás.

Evrópuráðið berst fyrir frjálsum fjölmiðlum

Jagland benti á fimm hornsteina fyrir öryggi í lýðræðisríkjum: skilvirkt og sjálfstætt dómskerfi, tjáningarfrelsi, frelsi til að koma saman og stofna samtök, skilvirkar lýðræðisstofnanir og samfélag án aðgreiningar og lýðræðisleg réttindi. Meðal þess sem kom fram í nýju skýrslunni var að þriðjungur meðlimaríkja Evrópuráðsins hafa ekki algjörlega sjálfstætt dómskerfi sem er eins skilvirkt og það á að vera. Auk þess hefur þriðjungur ekki góðan rammi fyrir frelsi fjölmiðla. Jagland sagði þetta draga fram ljóta mynd. Þegar kemur að frelsi fjölmiðla segir hann að það sé gamalt vandamál að stjórnvöld reyni að stjórna fjölmiðlum, hins vegar sé það nýtt vandamál að verið sé að reyna að blokka hluta af netinu sem ógni tjáningarfrelsi. Einnig megi líta á eignarhald fjölmiðla sem sé að einhverju leyti tengt pólitískum völdum. Evrópuráðið hefur ákveðið að beita sér gegn þessum straumum.

Fyrstur til að sitja tvö kjörtímabil

Jagland hefur verið framkvæmadstjóri Evrópuráðsins frá árinu 2009, hann situr nú sitt annað kjörtímabil og er fyrsti framkvæmdastjóri í sögu ráðsins sem var endurkjörinn annað kjörtímabil. Áður starfaði hann meðal annars sem forsætisráðherra og utanríkisráðherra Noregs og var stjórnarformaður norsku Nóbelsnefndarinnar.