Hönnunarteymið SPITAL varð hlutskarpast í samkeppni um áfangaskipt heildarskipulag fyrir 66.000 fermetra nýtt háskólasjúkrahús við Hringbraut og frumhönnun 1. áfanga nýja spítalans og tengdrar háskólastarfsemi. Gunnar Svavarsson, formaður verkefnisstjórnar um byggingu nýs Landspítala, segir að samkvæmt kostnaðaráætlun eigi þessi áfangi að kosta 51 milljarð króna.

Niðurstaða dómnefndar var kynnt við hátíðlega athöfn á Háskólatorgi í dag. Í SPITAL teyminu eru ASK arkitektar, Bjarni Snæbjörnsson arkitekt, Kanon arkitektar, Medplan, Teiknistofan Tröð, Landark, Efla verkfræðistofa, Lagnatækni og Norconsult.

Ein af meginforsendum hönnunarsamkeppninnar var að flytja starfsemi Landspítala í Fossvogi að Hringbraut og ljúka þannig sameiningu stóru spítalanna á höfuðborgarsvæðinu.