Framkvæmdir við stækkun Landspítalans við Hringbraut sem hefjast í sumar miðast að því að bráðadeild og rannsóknir muni flytjast úr Landspítalanum í Fossvogi, gamla Borgarspítalanum, árið 2023 að því er Morgunblaðið greinir frá. Benedikt Olgeirsson framkvæmdastjóri þróunarsviðs Landspítalans segir að þá muni megnið af starfseminni í Fossvogi flytjast á brott.

„Við hefjum byggingu meðferðarkjarnans í ár og erum að hanna rannsóknarhúsið. Vonandi byrjum við á því á næsta ári. Stefnt er að því að klára þessar tvær stóru byggingar árið 2023,“ segir Benedikt en samhliða verður sambærileg starfsemi við Hringbraut flutt í meðferðarkjarnann.

„Annars vegar á að sameina bráðastarfsemi spítalans í meðferðarkjarnanum. Hins vegar á að sameina rannsóknarstarfsemi í rannsóknarhúsinu. Hún er nú mjög dreifð.“

Benedikt segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um framtíðarnotkun gamla Borgarspítalans í Fossvogi, en eftir endurnýjun á gamla húsnæði Landsspítalans við Hringbraut verður restin af starfseminni í Fossvogi flutt þangað. „Þessi flétta tekur eitt til tvö ár.“