Páll Óskar Hjálmtýsson varð þeirrar gæfu aðnjótandi að hitta Quentin Tarantino á Olís bensínstöð í Borgarnesi eldsnemma að morgni mánudags. Páll Óskar er mikill aðdáandi Tarantino og notaði tækifærið til að þakka honum fyrir góð verk. Þeir félagar fengu einnig gott tækifæri til að spjalla um sameiginleg áhugamál, svosem ýmsar tegundir af filmum og söfnunaráráttu á slíkum munum.

Páll Óskar fjallaði um málið með eftirfarandi hætti á Facebook síðu sinni:

„Ég var að keyra til Reykjavíkur eftir magnaða helgi á Blönduósi og landsmóti skáta á Akureyri, stoppa í Borgarnesi og labba beint í flasið á gaurnum. Það var enginn annar þarna inni, nema afgreiðslumaðurinn (sem fékk yndislegt sjokk) og tveir ferðafélagar Tarantinos. Við náðum að spjalla í friði og ró um Super 8mm, 16mm og 35mm filmur og söfnunaráráttu okkar á því dóti. Svo náði ég að þakka honum fyrir öll hans verk, og hvað þau eru unnin af mikilli og sjaldséðri ástríðu. Ég ber svo mikla virðingu fyrir þessum listamanni. Hann er einn af fáum núlifandi leikstjórum sem maður hefur á tilfinningunni að hafi gaman að því að búa til bíó. Ég varð að láta taka mynd af mér með honum. Nú veit ég hvað það er að vera starstruck!“

Eins og VB.is fjallaði um var Tarantino meðal gesta í garðveislu Jóns Ólafssonar í síðustu viku. Myndir frá veislunni má sjá hér.