*

mánudagur, 15. júlí 2019
Innlent 1. september 2018 11:05

Spjót standa á stjórnvöldum

„Það sem fólk finnur fyrir á eigin skinni í daglegu lífi er eitthvað sem til stjórnvalda heyrir."

Sveinn Ólafur Melsted
Haraldur Guðjónsson

Eins og Viðskiptablaðið hefur áður greint frá, hafa fulltrúar heildarsamtaka atvinnulífsins frá áramótum fundað alls tíu sinnum með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra og Sigurði Inga Jóhanssyni samgönguráðherra í ráðherrabústaðnum. Þessir fundir hafa verið haldnir vegna þess að um áramótin losna um 80 kjarasamningar en mest af þeim eru samningar á almenna markaðnum. Samningarnir eru þar af leiðandi milli aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og Samtaka atvinnulífsins (SA). Stjórnvöld hafa því tekið virkan þátt í kjaraviðræðunum.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að í kjaraviðræðunum beinist böndin að stjórnvöldum vegna ákvarðana kjararáðs um launahækkanir kjörinna fulltrúa og annarra sem voru undir kjararáði.

„Þegar kjararáð tekur þessar ákvarðanir með allt að 45% launahækkanir, var þeim lagalega skylt að líta til síðustu kjarasamninga frá 2015 og einnig að þeirra ákvarðanir hefðu ekki áhrif á vinnumarkaðinn og ógnuðu stöðugleika. Við í VR og þingmaðurinn Jón Þór Ólafsson ákváðum að stefna ákvörðunum kjararáðs fyrir dóm og bíður það mál þess nú að vera tekið fyrir hjá Landsrétti. Það voru ekki bara þessar ákvarðanir kjararáðs sem tengjast þessu dómsmáli, heldur var einnig um að ræða afturvirkar greiðslur sem voru algjörlega taktlausar. Stjórnvöld virðast ekki ætla að taka eina einustu ábyrgð á þessum ákvörðunum kjararáðs. Þetta er ekki bara eitthvað sem mér og okkur sem eru í forsvari fyrir stærstu stéttarfélögin finnst. Við munum ekki geta borið það á borð til atkvæða til okkar félagsmanna að það verði ekki neinar kerfisbreytingar eða það komi ekki einhverjar verulegar mótvægisaðgerðir frá stjórnvöldum út af þessum ákvörðunum. Annaðhvort að það verði dregnir einhverjir hlutar til baka eða þá að það komi eitthvað til skiptanna fyrir okkur stéttarfélögin til þess að rétta okkar hlut. Við munum aldrei sækja slíkar kröfur á atvinnulífið, ég held að það sé öllum ljóst að við munum svo sannarlega gera þá kröfu á stjórnvöld að þau komi að borðinu og þau hljóta að gera sér grein fyrir því."

Skattkerfið gagnast tekjuhærri á kostnað tekjulægri

Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands og frambjóðandi til forseta ASÍ, tekur undir orð Ragnars Þórs um að ákvarðanir kjararáðs hafi beint spjótunum að stjórnvöldum og telur hún einnig vera þörf á frekari samfélagsbreytingum.

„Spjótin standa á stjórnvöldum í þessum kjaraviðræðum vegna launahækkana sem kjörnir fulltrúar hafa fengið og aðrir sem voru undir kjararáði. Þetta hefur hleypt illu blóði í fólk enda mikið ranglæti í þessum  launahækkunum. Greining á skattkerfinu og hvernig það hefur færst til hefur einnig haft þau áhrif að spjótin beinast að stjórnvöldum, þar sem það hefur gagnast þeim tekjuhærri á kostnað tekjulægri. Fólk finnur á eigin skinni að það fer í fjárhagslegt þrot ef það veikist. Velferðar kerfið er í ólagi og fólk finnur það einnig að húsnæðiskostnaðurinn hefur hækkað verulega, til dæmis þeir sem eru á leigumarkaðnum. Það sem fólk finnur fyrir á eigin skinni í daglegu lífi er eitthvað sem til stjórnvalda heyrir."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is