Undanfarin misseri hafa spjótin beinst að risaframkvæmd Silicor Materials á Grundartanga. Aðaleigandi fyrirtækisins er fjárfestingarsjóðurinn Hudson Clean Energy Partners (Hudson). Viðskiptablaðið ræddi við Neil Z. Auerbach, forstjóra Hudson og stjórnarmann Silicor Materials, og spurði hann út í þessa gagnrýni og hver staðan væri á framkvæmdinni sjálfri.

Bygging sólarkísilverksmiðju Silicor Materials á Grundartanga er stærsta framkvæmd á Íslandi síðan Kárahnjúkavirkjun var byggð. Heildarkostnaðurinn við byggingu verksmiðjunnar er um 900 milljónir dollara eða 120 milljarðar króna. Samkvæmt áætlunum mun verksmiðjan skapa ríflega 400 störf. Til samanburðar nam kostnaðurinn við Kárahnjúkavirkjun um 205 milljörðum króna, uppreiknað miðað við núverandi verðlag.

Spurður hvort verksmiðjan muni rísa á Grundartanga svarar Auerbach: „Já, við höfum fulla trú á því að fjármögnun klárist fljótlega. Við munum byggja verksmiðjuna."

Gagnrýni Skúla

Skúli Mogensen, eigandi flugfélagsins Wow, hefur einnig gagnrýnt byggingu verksmiðjunnar. Skúli keypti árið 2011 Hvammsvíkurjörðina í Kjósahreppi af Orkuveitu Reykjavíkur. Hinum megin við Hvalfjörðinn er járnblendiverksmiðja Elkem, Norðurál og lóð Silicor Material. Hann hefur lýst yfir áhuga á að reisa vistvænt hótel í Hvammsvík en í DV í vikunni sagði hann að ef sólarkísilverksmiðjan myndi rísa myndi hann hætta við byggingu hótelsins.

Í grein, sem Skúli birti í Kjarnanum 20. maí, bendir hann á að Calisolar, forveri Silicor Materials, hafi bakkað út úr verkefnum sínum í Mississippi og Ohio. Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur var reyndar fyrstur til að benda á þetta í grein sem hann birti á vef sínum síðasta sumar. Hann sagði einnig að Calisolar hafi breytt nafni sínu í Silicor Materials „til að fela sinn fyrri feril í viðskiptaheiminum".

„Erum við, Íslendingar núna þriðji aðilinn á fáum árum sem látum draga okkur á asnaeyrum?" spyr Skúli.  Þá veltir hann fyrir sér hvers vegna stórir fjárfestar séu ekki nú þegar búnir í fjárfesta í fyrirtækinu. „Getur einfaldlega verið að sökum þess að heimsmarkaðsverð á sólarkísil hefur hríðlækkað undanfarin 10 ár að viðskiptamódel Silicor Materials gangi ekki upp?" spyr Skúli.

Hagfræði 101

„Með fullri virðinu fyrir honum, hann er farsæll fjárfestir, þá hef ég líklega meiri reynslu af fjárfestingum í þessum iðnaði en flestir í heiminum," segir Auerbach. "Á síðustu tíu árum hef ég fjárfest fyrir meira en milljarð dollara í þessum iðnaði, má þar nefna fyrirtæki eins Sun Edison, First Solar og Canadian Solar. Þetta hafa allt verið gríðarlega farsæl verkefni. Þetta er í raun bara spurning um framboð og eftirspurn — hagfræði 101.

Framleiðsla á sólarkísli hefur líklega tífaldast á síðasta áratug og núna er heimsframleiðslan um 400 þúsund tonn á ári. Verksmiðjan okkar mun framleiða 19 þúsund tonn á fullum afköstum. Verð á sólarkísli hefur verið í nokkuð stöðugt undanfarið, í kringum 20 dollarar kílóið. Okkar verksmiðja verður sú hagkvæmasta í heiminum því framleiðslukostnaðurinn verður hvergi lægri. Það gefur augaleið að það er besta leiðin til að skila hagnaði. Það er ekki hægt að deila um þetta."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .