*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Innlent 16. febrúar 2019 11:05

Spjótin standa á Icelandair

Bogi Nils Bogason segir mistök við innleiðingu breytinga í markaðsstarfi og leiðarkerfi hafi verið leiðrétt.

Ritstjórn
Bogi Nils Bogason tók við stöðu forstjóra Icelandair Group á haustmánuðum í fyrra.
Haraldur Guðjónsson

 

Frá því í haust hafa fréttir um gjaldþrot og mikið tap flugfélaga verið nær daglegt brauð. Töluverð eftirvænting var því eftir uppgjöri Icelandair Group enda lék mönnum forvitni á að vita hvernig félagið hafði spjarað sig í ókyrrðinni sem einkennt hefur rekstrarumhverfi flugfélaga. En þrátt fyrir varfærnar væntingar var tapið engu að síður mun meira en greinendur höfðu reiknað með eða 6,7 milljarðar króna.

Niðurstaðan markar mikinn viðsnúning frá árinu 2017 þegar hagnaður Icelandair nam 4,5 milljörðum króna. Viðbrögð á markaði létu heldur ekki á sér standa. Hlutabréf Icelandair hríðféllu daginn eftir að uppgjörið var birt eða um 16% og nú tæpri viku seinna hafa þau fallið um nær fjórðung. Þetta þýðir að markaðsvirði Icelandair Group hefur lækkað um rúmar 10 milljarða króna frá því að tapið var tilkynnt.

„Árið 2018 var erfitt rekstrarár,“ var haft eftir nýskipuðum forstjóra Icelandair, Boga Nils Bogasyni, sem tók við stjórnartaumunum í haust. Rekstrarniðurstaðan var margfalt lakari en forveri hans, Björgólfur Jóhannsson, hafði boðað í upphafi rekstrarársins. Síðan Björgólfur kynnti afkomuspánna í upphafi árs 2018 hefur markaðsvirði félagsins minnkað um nær helmingi. Hæstu hæðum náði hlutafé Icelandair á vordögum 2016 þegar hluturinn var skráður á 39 krónur. Við lokun markaða í gær fór hluturinn á rúmar 8 krónur sem þýðir að verðmæti félagsins í dag er ekki fjórðungur af því sem það var þegar fjölgun ferðamanna virtist engan enda hafa.

Bogi Nils sagði tapið endurspegla harða samkeppni í millilandaflugi, lág og oft ósjálfbær fargjöld og mikla hækkun eldsneytisverðs. Ekkert af þessum ástæðum kom markaðaðilum á óvart enda sömu áskoranir og önnur félög hafa glímt við að undanförnu. Til viðbótar nefndi Bogi að breytingar á sölu- og markaðsstarfsemi félagsins sem og ójafnvægi í leiðarkerfi hefðu haft neikvæð áhrif á afkomuna.

Þessar misheppnuðu breytingar voru meðal þess sem Björgólfur fjallaði um síðastliðið sumar þegar hann lét af störfum. „Það er ljóst að þær hafa valdið félaginu fjárhagslegu tjóni á þessu ári… það er ábyrgðarhluti að hafa ekki fylgt breytingunum eftir með fullnægjandi hætti og brugðist fyrr við. Þá ábyrgð tel ég rétt að axla og læt því af störfum sem forstjóri félagsins,“ sagði Björgólfur sem taldi að mistökin hefðu lækkað ferþegatekjur félagsins um 5-8% eða jafngildi 10 til 12 milljarða á ársgrundvelli.

Þetta tekjutap er af þeirri stærðagráðu að eitt og sér skýrir það óvenju slaka afkomu félagsins í fyrra. En hvernig gengur nýjum stjórnendum að leiðrétta mistökin?

„Þetta voru tvær breytingar, annars vegar á leiðarkerfi og hins vegar á sölu og markaðsstarfi, sem fóru úrskeiðis, en svo spilaði þetta tvennt auðvitað saman. Það var ákveðið ójafnvægi í leiðarkerfinu sem við erum búin að laga fyrir áætlanir á þessu ári. Svo höfum við aftur verið að styrkja og laga markaðsstarfið á síðustu mánuð og eigum von á að sú vinna skili sér í bættri afkomu á þessu ári,“ segir Bogi í samtali við Viðskiptablaðið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskipblaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.