Stjórnir Sparisjóðsins í Keflavík (SPKEF), Byrs sparisjóðs og SPRON hafa undirritað viljayfirlýsingu þess efnis að hefja undirbúning og vinnu sem miðar að því að sameina sparisjóðina.

Í sameiginlegri tilkynningu frá sparisjóðunum kemur fram að þeir hafa skuldbundið sig til að ræða ekki við aðra aðila um samstarf eða sameiningu á meðan að viðræður standa yfir.

Stefnt er að því að niðurstaða liggi fyrir eins fljótt og hægt er.

Í viljayfirlýsingunni kemur fram að unnið verður eftir aðgerðaráætlun og er stefnt að því að stofnfjáreigendur og hluthafar verði boðaðir til fundar í febrúarmánuði til þess að fjalla um tillögu að samruna sem mun miðast við 1. janúar 2009.

„Sparisjóðurinn er jákvæður fyrir sameiningarviðræðunum,“ segir Geirmundur Kristinsson sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík í tilkynningunni.

„Þessir þrír sparisjóðir eiga hvað mesta samleið og gangi sameiningin eftir verður til sterk eining í sparisjóðafjölskyldunni öllum sparisjóðum til hagsbóta. Á þessum erfiðu tímum sem framundan eru, þá mun sameinaður sterkur sparisjóður mynda tryggan rekstrargrundvöll og skapa traust viðskiptavina og annarra hagsmunaaðila. Sameinaður sparisjóður mun áfram þjónusta sitt starfssvæði á öflugan hátt og í góðum tengslum við samfélagið. Sameining sjóðanna mun leggja grunninn að framtíð sparisjóða á Íslandi.”

Ragnar Z. Guðjónsson sparisjóðsstjóri Byrs sparisjóðs segir í tilkynningunni að stjórn Byrs hafi ákveðið að fara í þessar viðræður þrátt fyrir sterka stöðu Byrs með hagsmuni viðskiptavina og annarra hagsmunaaðila að leiðarljósi.

„Með viðræðunum erum við að kanna hvort grundvöllur sé fyrir sameiningu fyrirtækjanna,“ segir Ragnar í tilkynningunni.

„Náist niðurstaða sem er öllum aðilum að skapi, er lagður grunnur að sterku fyrirtæki sem er vel í stakk búið að takast á við framtíðina. Sameinaður sparisjóður á einnig mikil sóknarfæri þegar markaðir komast aftur í eðlilegt horf. Það er því áhugavert fyrir okkur að skoða þennan möguleika ofan í kjölinn. Við förum því  þessa vinnu af krafti og munum kanna þennan kost til hlítar eins hratt og auðið er.”

Þá segir Guðmundur Hauksson forstjóri SPRON að markmið sameiningarinnar sé að styrkja sparisjóðina í því erfiða efnahagsumhverfi sem framundan er og stuðla að aukinni hagræðingu í íslensku fjármálakerfi.

„Með samrunanum verður til stærri og öflugri eining, sem er vel í stakk búin að til takast á við ný og krefjandi framtíðarverkefni,“ segir Guðmundur í tilkynningunni.

„Sparisjóðirnir hafa allir þrír lagt ríka áherslu á persónulega og góða þjónustu til viðskiptavina sinna og með stærri og öflugri einingu verður hægt að efla þjónustu þeirra enn frekar. “