Fríðindi sem starfsmenn Spkef nutu voru ekki gefin upp til skatts. Þetta kom fram í kvöldfréttum Rúv og kemur fram í skýrslu Price Waterhouse Coopers um sparisjóðinn, sem gerð var fyrir fjármálaeftirlitið.

Sparisjóðurinn átti fasteign á Akureyri sem Geirmundur Kristinsson sparisjóðsstjóri réð einn yfir. Engin gögn lágu fyrir um hvernig fasteignin var notuð. Sparisjóðurinn yfirtók einnig íbúð í Kópavogi og leigði hana syni eins starfsmanna sjóðsins á verði sem virðist hafa verið vel undir markaðsvirði.

Samkvæmt skýrslunni nutu valdir starfsmenn fríðinda umfram hefðbundin starfsmannakjör. Sjö starfsmenn höfðu bíl til umræða, sumir fengu farsíma og ADSL-tengingar en engar reglur giltu um úthlutun þessara fríðinda. Þá fengu níu háttsettir starfsmenn líf- og sjúkdómatryggingar greiddar og fjórir til viðbótar slysatryggingu.

Í skýrslunni er gerð athugasemd við að ýmis fríðinda starfsmanna SpKef hafi ekki verið gefin upp til skatts. Bílahlunnindi voru þau einu sem gefin voru upp en tryggingarnar og afnotin af húsinu á Akureyri hefði átt að gefa upp til skatts.