Tap Sparisjóðs Keflavíkur (SPKEF) eftir skatta nam 10,6 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins.

Þetta kemur fram í afkomutilkynningu frá sparisjóðunum.

Þar segir að neikvæð þróun á hlutabréfamarkaði hafði afgerandi áhrif á niðurstöðu tímabilsins.

Samkvæmt tilkynningunni námu hreinar vaxtatekjur 992 milljónum króna og hreinar þjónustutekjur 244 milljónum króna.

Þá voru hreinar rekstrartekjur voru neikvæðar um 9,95 milljarða. Helstu ástæður eru þróun hlutabréfamarkaða og varúðarniðurfærsla eignasafns Sparisjóðsins vegna óhagstæðra markaðsaðstæðna, að því er segir í tilkynningunni.

Heildareignir 90,5 milljarðar króna

Heildareignir SPKEF námu 90,5 milljörðum króna en heildarútlán til viðskiptavina Sparisjóðsins námu 72 milljörðum í lok júní og hafa samkvæmt tilkynningunni aukist um 9,6 milljarða frá áramótum, eða 15,46%.

Innlán eru 62,34% af heildarútlánum til viðskiptamanna. Innlán hafa aukist um 15,4% frá áramótum og voru 44,9 milljarðar króna í lok júní.

Eigið fé Sparisjóðsins í Keflavík nam 12 milljörðum þann 30. júní 2008. Eiginfjárhlutfall (CAD) Sparisjóðsins var 10,31% þann 30. júní 2008.

Vaxtamunur tímabilsins var 2,15% í samanburði við 1,4% fyrir sama tímabil árið 2007 og 1,2% fyrir allt árið 2007.

Sérstök virðisrýrnun útlána nam 1.212 milljónum í samanburði við 157 milljónir á sama tímabili árið 2007. Um er að ræða varúðarframlag sem endurspeglar ekki endanleg útlánatöp, heldur er ætlað að mæta hugsanlegum útlánatöpum í framtíðinni.

Stefnt að frekari lækkun rekstrarkostnaðar

Í tilkynningunni kemur einnig fram að nú er að ljúka fjármögnun íbúðabréfa Sparisjóðsins að verðmæti um 5 milljarða króna í gegnum Íbúðalánasjóð.

Þá kemur einnig fram að endurskipulagning starfseminnar hefur m.a. leitt til fækkunar starfsmanna í    Sparisjóðnum um 11,2% frá áramótum eða um 17 stöðugildi.

„Svigrúm er til að lækka rekstrarkostnað enn frekar og sífellt er leitað leiða til hagræðingar í rekstri,“ segir í tilkynningunni einnig kemur fram að á næstu mánuðum verður lögð áhersla á að styrkja grunnrekstur sjóðsins enn frekar.