Stjórn Sæplast hf. hefur ákveðið að endurnýja framleiðslutæki verksmiðju félagsins í Álasundi í Noregi sem framleiðir varnarbúnað fyrir skip og báta, fríholt og baujur úr mjúku plasti. Áætlað er að fjárfesting í nýjum tækjabúnaði geti numið allt að 230 milljónum króna.

Jafnframt endurnýjun tækjabúnaðarins verður rekstur fyrirtækis Sæplast í Noregi endurskipulagður frá grunni, meðal annars verður fyrirtækinu skipt í tvö fyrirtæki annars vegar fyrirtæki sem framleiði fríholt, baujur og flot fyrir net og hins vegar fyrirtæki sem framleiðir hverfissteyptar vörur svo sem einangruð ker. Mun hið síðar nefnda verða rekið í náinni samvinnu við fyrirtæki Sæplast á Dalvík.

Núverandi tækjabúnaður verksmiðjunnar er all gamall og fullnægir ekki nútímakröfum um sjálfvirkni, framleiðni og gæði. Við endurnýjunina verður lögð áhersla á sjálfvirkni og nýtingu nútíma tækni til að tryggja framleiðni og gæði jafnframt því sem starfsmanna fjöldi í framleiðslunni verður í lágmarki. Fyrirtækið selur vörur sínar undir vörumerkjunum Polyform og Scanmarin sem bæði eru mjög þekkt og viðurkennd vörumerki á umræddum markaði. Með endurnýjun á tækjabúnaði er stefnt að því að rekstur þessara einingar verði arðbær og hagkvæmur jafnframt því sem sköpuð verða tækifæri til frekari sóknar fyrirtækisins á markaði fyrir fríholt og baujur. Markaður fyrir þessar vörur er meðal annars í skemmtibátum hverskonar sem er vaxandi markaður með tækifærum til sóknar. Endurnýjun tækjabúnaðarins verður framkvæmd í áföngum en gert er ráð fyrir því að henni verði að fullu lokið í lok næsta árs.

Endurnýjun tækjabúnaðarins og endurskipulagning er hluti aðgerða félagsins til að tryggja að hagnaður verði af rekstri Sæplast í Noregi og skapa ný sóknarfæri í þeim rekstri.