„Stjórn Sparisjóðs Mýrasýslu hafði frumkvæði að þessum viðskiptum og þar sem sparisjóðurinn er á svæðum þar sem Kaupþing er með tiltölulega litla starfsemi, sáum við í þessu gott tækifæri,”  sagði Ingólfur Helgason, forstjóri Kaupþings á Íslandi, í tölvupósti til Viðskiptablaðsins.

Stjórn Sparisjóðs Mýrasýslu hefur ákveðið að leggja til við fund stofnfjáreigenda að stofnfé sjóðsins verði aukið um tvo milljarða króna. Framlagið kemur að mestu frá Kaupþingi [ KAUP ].

Eftir stofnfjáraukninguna verður hlutur Kaupþings í stofnfé SPM 70%, hlutur Borgarbyggðar 20% og annarra fjárfesta 10%, að því er segir í fréttatilkynningu.

Borgarbyggð á Sparisjóð Mýrasýslu að fullu í dag.

Áætlað er að fundur stofnfjáreigenda, þar sem tillaga stjórnar verður lögð fram, verði  föstudaginn 15. ágúst. Ingólfur vildi ekki tjá sig frekar um viðskiptin fyrr en að þeim fundi loknum.

„Rekstur SPM hefur verið erfiður á fyrri hluta ársins vegna slæms árferðis á fjármálamörkuðum.  Með nýju stofnfé verður fjárhagslegur grundvöllur sjóðsins traustur og hann mun þjóna viðskiptavinum sínum vel hér eftir sem hingað til,” sagði Gísli Kjartansson, sparisjóðsstjóri, í fréttatilkynningu um kaupin.

Samkvæmt ársreikningi Sparisjóðs Mýrasýslu 2007 var eiginfjárhlutfall samkvæmt CAD-reglum 11,6%. Heildareignir sparisjóðsins voru 47,7 milljarðar króna við árslok. Það eru nokkuð minna en heildarhagnaður Kaupþings árið 2007; sem hagnaðist um 70 milljarða króna það ár. Heildareignir Kaupþings námu 5.347,3 milljörðum við lok árs, samkvæmt upplýsingum úr ársreikningi.