Gísli Kjartansson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Mýrasýslu (SPM) fékk um 121 milljón króna í laun og uppgjör vegna lífeyrisskuldbindinga á síðasta ári.

Þetta kemur fram í ársreikningi samstæðunnar sem tapaði um rúmlega 21 milljarði króna á síðasta ári.

Bernhard Þór Bernhardsson var ráðinn sparisjóðsstjóri frá og með 3. september s.l. en daginn áður tilkynnti samstæðan að Gísli hygðist láta af störfum að eigin ósk.

Í ársreikningi samstæðunnar kemur fram að í tengslum við starfslok Gísla var gert samkomulag um lífeyrisskuldbindingu hans sem nam að uppreiknaðri fjárhæð 180,7 milljónum króna. Greiðslurnar  námu 76,2 milljónum króna vegna uppgjörs lífeyrisskuldbindingar og 44,8 milljónum króna vegna launa eða samtals tæpri 121 milljón króna.

Bernhard Þór fékk greiddar 15,8 milljónir króna á árinu en hann gegndi áður stöðu forstöðumanns viðskiptaþjónustu hjá SPM.