Tap Sparisjóðs Mýrasýslu og dótturfélaga hans var á síðasta ári rúmir 21,2 milljarðar króna samanborið við hagnað upp á rúmar 635 milljónir króna árið áður.

Þetta kemur fram í ársreikningi samstæðunnar sem birtur var í dag en stjórn Sparisjóðs Mýrasýslu og sparisjóðsstjóri hafa í dag fjallað um samstæðuársreikning sparisjóðsins fyrir árið 2008 og staðfest hann með undirritun sinni.

Eigið fé í árslok var neikvætt um 15,1 milljarð króna samkvæmt efnahagsreikningi. Eiginfjárhlutfall var því neikvætt um 32,1% hjá samstæðunni en samkvæmt lögunum má hlutfallið ekki vera lægra en 8,0% og því uppfyllir sparisjóðurinn ekki skilyrði laga.

Mestu munar um virðisrýrnun útlána á milli ára en þau námu á síðasta ári rúmum 15,7 milljörðum króna samanborið við tæpar 580 milljónir króna árið áður. Þá jókst annar rekstrarkostnaður um tæpan milljarð króna og nam á síðasta ári rúmum 1,6 milljarði.

Launagreiðslur minnkuðu milli ára og námu í fyrra 549,5 milljónum króna samanborið við 673, milljónir króna árið áður.

Þjónustutekjur samstæðunnar jukust lítillega milli ára og námu rúmum 311 milljónum króna samanborið við tæpar 307 milljónir króna árið áður.

Fram kemur í ársreikningi félagsins að viðræður við lánardrottna sparisjóðsins hafa staðið yfir frá því á miðju ári 2008 í því skyni að framkvæma fjárhagslega endurskipulagningu á sjóðnum og tryggja að hann uppfylli skilyrði laga.

Þann 3. apríl 2009 var gerður samningur um sölu allra eigna Sparisjóðs Mýrasýslu til Nýja Kaupþings banka hf. á grundvelli samkomulags við helstu lánardrottna.

Þann 27. apríl sl. voru útibú sparisjóðsins og Nýja Kaupþings banka í Borgarnesi sameinuð og starfsmenn sparisjóðsins færðust yfir til Nýja Kaupþings banka. Í kjölfarið sótti sparisjóðurinn um greiðslustöðvun og gert er ráð fyrir að ljúka samningum við lánadrottna með nauðasamningum í því skyni að tryggja jafnræði kröfuhafa.

Stjórn sparisjóðsins leggur til að ekki verði greiddur arður til stofnfjáreigenda á árinu 2009 vegna ársins 2008.