Eins og fjallað var um í Viðskiptablaðinu fyrr í vikunni hyggjast stefnusmiðir Evrópska seðlabankans breyta reglum um endurhverf verðbréfaviðskipti á næstu vikum. Á sínum tíma víkkaði bankinn út veðheimildir til þess að auka aðgengi að lánsfé vegna lánsfjárkreppunnar og náðu þær meðal annars til fasteignatryggðra lánapakka. Nú er hinsvegar svo komið að mörgum þykir of langt hafi verið gengið og benda á að útvíkkunin á heimildinni hafi beinlínis leitt til dulbúinnar neyðaraðstoðar Evrópska seðlabankans við fjármálafyrirtæki í suðurhluta álfunnar – aðstoð sem er í raun og veru fjármögnuð af skattgreiðendum í norðurhluta álfunnar.

Bloomberg-fréttastofan segirað spænskir bankar hafi komið sér upp eignatryggðum lánapökkum að andvirði 89 milljarða evra til þess að nota í endurhverfum verðbréfaviðskiptum við Evrópska seðlabankann. Ekkert aðildarríki evrusvæðisins hefur nýtt sér útvíkkaðar veðheimildir seðlabankans í jafn miklum mæli og Spánn. Þetta þýðir að spænskir bankar hafa reitt sig á seðlabankann þegar kemur að aðgengi að skammtímalánsfé og svo nýtt það til útlána til neytenda og fyrirtækja. Í sjálfu sér má líta á þetta sem niðurgreiðslu þar sem spænsku bankarnir myndu þurfa að borga mun meira fyrir fjármögnun á almennum markaði.

Tölur sem Bloomberg hefur tekið saman sýna vel hversu stórtækir spænskir bankar hafa verið í þessum viðskiptum: Þeir hafa aukið mánaðarlegar lántökur sínar hjá Evrópska seðlabankanum um 31 milljarð evra og nema þær nú 49,4 milljörðum evra. Aukningin er þrisvar sinnum hærri upphæð en sú sem er í efnahagspakkanum sem ríkisstjórn sósíalista undir stjórn Jose Luis Zapatero leggur fram til þess að örva atvinnulífs landsins.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .