Hagnaður Spalar ehf., sem á og rekur Hvalfjarðargöng, nam 236 milljónum króna eftir skatta á rekstrarárinu 1. október 2009 til 30. september 2010. Á sama tímabili í fyrra nam tap félagsins 129 milljónum króna.

Á fjórða ársfjórðungi félagsins (1. júlí til 30. september) nam hagnaður félagsins eftir skatta um 189 milljónum króna, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallar.

Segir í tilkynningu að greiðsluflæði gefi betri mynd af gangi félagsins þar sem verðbætur vegna vísitöluhækkana lána dreifist til greiðslu fram til loka lánstímans. Það er árið 2018. Segir að greiðslugeta sl. 4 ár hafi verið sterk. Um 600 milljónir króna voru greiddar í afborganir og vexti á rekstrarárinu.

Veggjald ársins nam 975 milljónum króna til samanburðar við 920 milljónir króna árið áður. Það er um 6% hækkun.

Rekstrarkostnaður félagsins nam 281 milljón króna á tímabilinu og hækkaði um rúmar 19 milljónir króna frá fyrra tímabili. Segir að hækkunin skýrist fyrst og fremst af hækkun launa og launatengdra gjalda og aðkeyptrar þjónustu.

Þá voru skuldir félagsins 4.230 milljónum króna þann 30. september 2010 en voru 4.413 milljónir á sama tíma í fyrra.