Vegna neikvæðrar rekstrarafkomu Spalar, sem rekur Hvalfjarðargöngin, á síðasta ári verður óhjákvæmilegt að hækka veggjald í Hvalfjarðargöngum á næstunni.

Frá þessu er greint á vef Skessuhorns en hvenær hækkunin verður eða hversu mikil hún verður er á valdi nýrrar stjórnar sem endurkjörin var á aðalfundi Spalar nýlega.

Rekstrarafkoma Spalar var neikvæð á síðasta rekstrarári annað árið í röð. Hallinn var 129 milljónir króna frá 1. október 2008 til 30. september 2009, en 220 milljónir króna á rekstrarárinu þar á undan.

Tekjur Spalar voru 920 milljónir króna á síðasta rekstrarári, 59 milljónum króna minni en árið þar áður. Rekstrarkostnaður var liðlega 493 milljónir króna. Langtímaskuldir voru 3,5 milljarðar króna í lok rekstrarárs, nánast óbreytt tala frá ári áður. Heildarskuldir voru 4,4 milljarðar króna, líka nánast óbreytt tala frá því í fyrra.

Meðalumferðin um göngin  var 5.400 bílar á sólarhring að jafnaði, sem er um 1,8% minna en á fyrra rekstrarári.

Sjá nánar á vef Skessuhorns.