Ríkisstjórnin hyggst sporna við skattsvikum vegna eignarhalds í lágskattaríkjum, en Bjarni Benediktsson Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp þess efnis. Tilefnið eru nýlegar upplýsingar um eignir Íslendinga í skattaskjólum sem birtust í kjölfar upplýsingaleka í Panamaskjölunum svokölluðu og vilji ríkisstjórnarinnar til að bregðast tafarlaust við mögulegum undanskotum frá skatti.

Reglur hertar og gerðar skýrari

Þær breytingar sem felast í frumvarpinu eru að takmarkað verður að nýta tap á félögum í lágskattaríki til að draga úr skattbyrði ásamt því að takmörk verða sett á samruna og skiptingu yfir landamæri. Einnig verða verulegar takmarkanir settar á flutning lögheimilis og eigna til lágskattaríkja.

Jafnframt verður ákvæði um skattlagningu aðila sem eiga beina eða óbeina eignaraðild að félögum, sjóðum eða stofnunum sem eru heimilisföst í lágskattaríkjum gerð skýrari, það er svokallað CFC-ákvæði.

Aukin upplýsingaskylda og fyrningartími lengdur

Einnig verður upplýsingaskylda fjármálastofnana og lögmanna endurskoðuð og aðgengi innheimtumanna aukið að upplýsingum um eignastöðu gjaldenda.

Fyrningartími sakar verður lengdur úr sex árum í tíu vegna tekna í lágskattaríkjum og heimildir til endurákvörðunar skatta lengdar að sama skapi vegna slíkra tekna sem ekki hefur verið gerð fullnægjandi grein fyrir í skattskilum.

Viðurlög hert og frekari aðgerðir boðaðar

Greiningargeta tollyfirvalda verður aukin og viðurlög hert við að gefa upp rangar upplýsingar við innflutning. Að auki hefur ráðherra skipað starfshóp til að vinna að frekari breytingum til að sporna gegn skattaundanskotum og nýtingu skattaskjóla.