Félagsmálaráðherra hefur undirritað reglugerð sem kveður á um að hámarkslánshlutfall Íbúðalánasjóðs skuli lækkað úr 90% í 80%. Hámarkslán helst óbreytt 18 milljónir króna. Greiningardeild Kaupþings telur aðgerðirnar jákvæðar og muni draga úr verðbólguþrýstingi.

Í mars síðastliðnum hækkaði Íbúðalánasjóður lánshlutfall almennra lána í 90% og taldi Greiningardeil Kaupþings að slík aðgerð væri varasöm í ljósi þenslumerkja í hagkerfinu og aðgerð sem eingöngu væri til þess fallin að ýta undir frekari hækkun fasteignaverðs.

"Frá þeim tíma hafa umsvif á fasteignamarkaði aukist umtalsvert og í dag er tólf mánaða hækkun fasteignaverðs komin upp í 9,5%. Fasteignaverð vegur þungt í vísitölu neysluverðs og hefur því verið meginþáttur í hækkun á vísitölu neysluverðs á síðustu mánuðum. Að mati Greiningardeildar eru því aðgerðirnar sem félagsmálaráðherra kynnti í dag jákvæðar. Aðgerðirnar ættu að sporna gegn frekari þenslu á fasteignamarkaði og þar með draga úr þeim verðbólguþrýstingi sem enn er til staðar í hagkerfinu," segir Greiningardeildin.