Sportabler kerfið, sem inniheldur m.a. smáforrit,  var fyrst sett í loftið fyrir rúmlega tveimur árum síðan og er orðið mörgum sem tengjast íslensku íþróttalífi góðkunnugt. Forritið hjálpar íþróttafélögum að skipuleggja starf sitt, taka við greiðslum og skráningum og auðveldar samskipti milli þjálfara og foreldra. Í dag eru notendur Sportabler um 70 þúsund talsins en vegferð sprotafyrirtækisins er þó aðeins rétt að hefjast, að sögn Markúsar Mána M. Maute, framkvæmdastjóra fyrirtækisins.

„Sportabler á rætur sínar að rekja í gott afreks- og uppeldisstarf innan íþrótta á Íslandi. Við viljum styðja við íslenskt íþróttastarf með framúrstefnulegum aðferðum og tækni svo jákvæður áhrifamáttur skipulags íþróttastarfs verði sem mestur. Við erum að nálgast þetta verkefni í skrefum og á þeim tíma sem við höfum verið á markaði hefur okkur tekist að stíga mikilvæg skref í átt að langtíma markmiðum okkar.“

Markús segir að þegar fyrirtækið hafi fyrst hafist handa hafi svokallaður „þarfapíramíði“ íþróttastarfs verið skilgreindur. „Við gerðum okkur grein fyrir því að mesta þörf var á að efla grunnþrep píramíðans, sem snýr að skipulagi, samskiptum og umsýslu ýmissa fjármuna, ásamt því að veita skýrari sýn á lykiltölur í rekstri. Íþróttahreyfingin er drifin áfram af fólki fullu af eldmóði sem brennur fyrir íþróttir og vill hjálpa iðkendum að komast hærra og lengra.“

Kerfið í sífelldri þróun

Markús segir að það sem einkenni þó grasrótarstarfið oft á tíðum sé skortur á fjármagni, tækjum og tólum. „Þetta eykur álag á þá sem að starfinu koma og það einmitt á þeim sviðum sem fólkið brennur ekki endilega fyrir. Sjálfboðaliðar, þjálfarar og starfsfólk eiga það til að hnoðast áfram í grunnþrepi þarfapíramídans, og ná því ekki að sinna efri þrepum eins vel og þau vildu. Okkar keppikefli undanfarin ár hefur því verið að nýta tæknina og ráðast enn hraðar á margar þær hindranir sem sífellt eru að endurtaka sig og hamla framþróun innan íþróttahreyfingarinnar.“

Að sögn Markúsar er Sportabler kerfið í sífelldri þróun. „Eftir því sem við komumst lengra þá líta nýir möguleikar dagsins ljós. Sportabler nær nú þegar yfir og skrásetur íþróttaiðkun hjá stórum hluta þjóðarinnar. Það er því einstakt tækifæri fyrir hreyfinguna og okkar besta fræðifólk til að stunda gagnvirkar rannsóknir og kortleggja jákvæða og neikvæða áhrifaþætti fyrir stefnumóun innan íþróttastarfsins. Í því samhengi væri óskandi að  opinberir aðilar tækju þann bolta með okkur í framtíðinni. Það hefur margoft verið sannað hvað íþrótta- og tómstundastarf hefur haft jákvæð þjóðfélagsleg áhrif fyrir íslensku þjóðina – það kostar lítið en skilar miklu til lengri tíma litið. Það er því mikið í húfi að hlúa að þessum þætti og stuðla að gagnadrifinni framþróun á þessum vetttvangi.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Fjallað um taprekstur íslenskrar stóriðju.
  • Reglugerðardrög um hlutdeildarlán virðast falla illa að fasteignamarkaðnum og fækka í þeim hópi sem gæti átt rétt á lánunum.
  • Rætt er við Skúla Skúlason, eiganda og stjórnarformann Play, um lánsfé Fea ehf. sem nýta á í rekstur Play.
  • Jóhann Þórsson nýr markaðsstjóri Sjóvá segir frá því hvernig endað er í slíku starfi eftir nám í tölvunarfræði.
  • Ríkið gæti þurft að endurgreiða milljarða falli dómur í því í óhag í máli sem varðar skilagjald.
  • Greint er frá verkefnastjórnunarkerfinu Inch. Hugmyndin tók þátt í viðskiptahraðlinum Startup SuperNova.
  • Miklar breytingar hafa orðið á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis innan höfuðborgarsvæðisins eftir póstnúmerum.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs sem skrifar um ÁTVR.