Í hálf fimm fréttum Kaupþings kemur frá að íþróttavöruverslanakeðjan Sports Direct hafi eignast 15% hlut í íþróttavöruframleiðandanum Umbro. Hækkuðu hlutabréf í Sports Direct um tæp 11% í dag, en stofnandinn Mike Ashley er stærsti hluthafinn í keðjunni. Á dögunum kom fram að Baugur Group ætti um 1% í Sports Direct.


Vangaveltur um yfirtöku
Hlutabréf í JJB Sports, helsta keppinauti Sports Direct, hækkuðu jafnframt í dag eða um 3%. Bandaríska sjóðastýringarfélagið Harris Associates jók hlut sinn í JJB Sports á dögunum upp í 7% og fleiri fjárfestar hafa verið að auka við hlut sinn. Orðrómur er uppi um að Exista og forstjóri JJB Chris Ronnie, sem eiga samtals 29% hlutafjár, ætli sér að taka félagið af markaði. Bréf fyrirtækisins hafa hækkað í verði um fimmtung á síðustu þremur vikum en eru þó umtalsvert lægri en þau voru þegar Exista og Ronnie eignuðust 29% hlut í júní. Gengið stendur nú í 172 pensum á hlut samanborið við 275 við kaup Exista. Gengislækkunin gæti því aukið líkurnar á að ráðist verði í yfirtöku.