Íþróttavöruverslunin Sports Direct á Íslandi hagnaðist um 154 milljónir króna miðað við 178 milljóna hagnað á fyrra ári samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins sem nær til rekstrarársins sem lauk í lok apríl 2019.

Rekstrartekjur félagsins lækkuðu úr 848 milljónum króna í 809 milljónir króna milli ára. Stöðugildum fækkaði úr 30 í 23 og laun og launatengd gjöld lækkuðu úr 202 milljónum króna í 171 milljón króna.

Verslunin var opnuð hér á landi árið 2012 og var í eigu mæðginanna Sigurðar Pálma Sigurbjörnssonar og Ingibjargar Pálmadóttur auk Jeffrey Blue, fyrrverandi starfsmanns Baugs, ásamt breska móðurfélagi Sports Direct, sem Mike Ashley stýrir. Eftir deilur í eigendahópnum eignaðist breska móðurfélagið verslunina að fullu árið 2018. Í umfjöllun Sunday Times um deilurnar var fullyrt að verslunin hér á landi væri sú arðbærasta í keðju Sports Direct.

Jeffrey Blue átti upphaflega 15% hlut í versluninni á Íslandi. Hann seldi þó hlut sinn eftir að hafa sinnast við Mike Ashley. Blue taldi að Ashley hefði lofað sér 15 milljóna punda bónusgreiðslu þegar þeir sátu á sumbli á krá í London árið 2013 ef hlutabréfaverð Sports Direct tvöfaldaðist, sem síðar varð raunin. Bónusgreiðslan var þó aldrei greidd og stefndi Blue í kjölfarið Mike Ashley en tapaði málinu.